Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Handtökur vegna rannsóknar á Skeljungssölunni

05.06.2018 - 18:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Umfangsmiklar aðgerðir fóru fram í síðustu viku í tengslum við söluna á Skeljungi árið 2008. Íslandsbanki kærði söluna til lögreglu árið 2016. Skeljungur og færeyska olíufélagið P/​F Magn voru í eigu Glitnis þegar félögin voru seld út úr bankanum árið 2008 til félags í meirihlutaeigu hjónanna Guðmundar Arnar Þórðarsonar og Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, og Birgis Bieltvedts. Sá sem hélt utan um söluna hjá Glitni var Einar Örn Ólafsson sem varð síðar forstjóri Skeljungs.

Uppfært kl 18.56 með yfirlýsingu Svanhildar Nönnu sem lesa má hér að neðan.

Árið 2009, eftir að Glitnir varð að Íslandsbanka ákvað bankinn að láta skoða söluna, en grunur var um að starfsmenn bankans hefðu hagnast óeðlilega á sölunni, og að félögin hafi verið seld á undirverði. Sú athugun leiddi ekkert grunsamlegt í ljós. Árið 2016 ákvað bankinn hins vegar að taka málið upp að nýju og kæra þrjá einstaklinga sem henni tengdust til lögreglu.

Málið hefur verið til rannsóknar upp frá því, og á fimmtudaginn var ráðist í umfangsmiklar aðgerðir þar sem einhverjar handtökur fóru fram, auk þess sem einhverjir voru kallaðir í skýrslutökur. Enginn var þó úrskurðaður í gæsluvarðhald og var hinum handteknu sleppt um kvöldið. Ráðist var í húsleitir og lagt hald á töluvert af gögnum í aðgerðunum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu snýr rannsóknin meðal annars að meintum umboðssvikum.

Á föstudag, daginn eftir aðgerðirnar, var tilkynnt að Svanhildur Nanna hefði hætt sem stjórnarformaður VÍS. Hún situr enn í stjórninni. Í yfirlýsingu sem Svanhildur Nanna sendi frá sér staðfestir hún að embætti héraðssaksóknara hafi til skoðunar kaup þeirra hjóna á hlutum í Skeljungi árið 2008 og færeyska olíufélaginu P/F Magna með öðrum fjárfestum árið 2009. 

Rannsóknin væri tilkomin vegna kæru sem Íslandsbanki hefði lagt fram árið 2016. „Kaup okkar á hlutum í umræddum félögum bar að með eðlilegum hætti og við teljum einsýnt, að opinber rannsókn á viðskiptunum muni eyða öllum vafa um réttmæti þeirra. Við höfum veitt fulltrúum héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir og munum áfram aðstoða þá við rannsóknina.“

Yfirlýsingin í heild:

Embætti héraðssaksóknara hefur nú til skoðunar kaup okkar á hlutum í Skeljungi hf. árið 2008 og færeyska félaginu P/F Magni með öðrum fjárfestum árið 2009. Rannsóknin er tilkomin vegna kæru sem Íslandsbanki lagði fram árið 2016.

Kaup okkar á hlutum í umræddum félögum bar að með eðlilegum hætti og við teljum einsýnt, að opinber rannsókn á viðskiptunum muni eyða öllum vafa um réttmæti þeirra.

Við höfum veitt fulltrúum héraðssaksóknara allar þær upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir og munum áfram aðstoða þá við rannsóknina. Við höfum að eigin frumkvæði greint Fjármálaeftirlitinu frá henni, stjórnendum og regluvörðum þeirra skráðu félaga sem við tökum þátt í að stýra. Rétt er að árétta, að þau félög tengjast rannsókninni ekki á nokkurn hátt. Við munum áfram sitja í stjórnum félaganna, en Svanhildur Nanna ákvað að láta öðrum eftir stjórnarformennsku í VÍS hf. á meðan rannsóknin stendur yfir.

Við væntum þess að málið fái skjóta meðferð og rannsóknin gangi hratt fyrir sig.