Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Handtóku bandamann Navalnys og sendu í Norðuríshafið

26.12.2019 - 10:56
epa08090625 (FILE) - Russian opposition leader Alexei Navalny (L) attends a hearing at the Simonovsky District court in Moscow, Russia, 22 August 2019 (reissued 26 December 2019). According to media reports, Navalny was once again arrested on 26 December after Russian authorities raided the headquarters of his Anti-Corruption Foundation (FBK) in Moscow. Navalny's detention comes after one of his allies, Ruslan Shaveddinov, was forcibly sent to serve in the military at a remote outpost in the arctic on 23 December.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ruslan Sjavedinov, rússneskur verkefnastjóri í stofnun stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny gegn spillingu, var handtekinn með valdi í Moskvu á mánudaginn. Hann birtist svo á afskekktri herstöð í Norðuríshafinu á Aðfangadagskvöld þar sem rússar hafa komið upp flugskeytavarnarkerfi.

Navalny var svo sjálfur handtekinn í dag þegar lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum stofnunarinnar.

Lögregla réðst inn á heimili Sjavedinovs með því að brjóta niður hurðina á íbúðinni. Þeir brutu SIM-kortið úr símanum hans sem hafði þegar verið gerður óvirkur yfir netið og tóku rafmagnið af íbúðinni.

Þvinguð herþjónusta

Navalny greindi frá þessu í morgun og sagði Sjavedinov hafa haft samband við sig í gær. Honum hafi tekist að hringja eitt símtal úr síma einhvers annars á herstöðinni í Íshafinu. Sjavedinov hafði beðist undan því að þurfa að gegna herþjónustu af heilsufarsástæðum.

Stjórnarandstæðingar í Rússlandi hafa líkt þessari þvinguðu herþjónustu við kúgun sovéskra stjórnvalda í Rússlandi, sem sendu þá sem ekki voru hliðhollir stjórnvöldum á afskekkta staði. Herþjónusta er orðið annað form frelsissviptingar, skrifaði Navalny meðal annars á samfélagsmiðla í dag.

Söguðu niður hurðina á höfuðstöðvunum

Navalny var svo sjálfur færður í varðhald í Moskvu eftir húsleit lögreglunnar í höfuðstöðvum stofnunar hans gegn spillingu. Honum var svo sleppt nokkru síðar.

epa08090077 Russian President Vladimir Putin takes part in a Night Hockey League friendly match at the skating rink in the Red Square in Moscow, Russia, 25 December 2019.  EPA-EFE/MICHAEL KLIMENTYEV / KREMLIN POOL / SPUTNIK MANDATORY CREDIT
Vladimír Pútín spilaði íshokki í gær.

Á upptökum öryggismyndavéla má sjá að lögreglan notaði vélknúin verkfæri til þess að saga niður hurðina inn í bygginguna þar sem stofnunin er til húsa. Hópur manna hófu svo að leita í húsinu, einhverjir þeirra höfðu grímur fyrir andlitinu. Allt þetta má sjá á upptökunum áður en límband er sett yfir linsu öryggismyndavélanna.

Gagnrýnir Pútín

Navalny hefur verið gagnrýninn á stjórn Vladimírs Pútín í Rússlandi. Hann hefur oft ætlað að bjóða sig fram sem forseta gegn Pútin en oftar en ekki verið færður í varð hald fyrir ýmsar sakir. Bandaríska fréttastofan Reuters hefur heimildir fyrir því að Navalny hafi ætlað að birta gagnrýnið myndskeið á vefnum síðar í dag.

Stofnun Navalnys gegn spillingu hefur sérhæft sig í að birta frásagnir sem afhjúpa spillingu opinberra starfsmanna í Rússlandi. Lögreglan rannsakar stofnunina hins vegar vegna ásakana um peningaþvætti. Rannsóknin hófst í ágúst eftir að Navalny hvatti fólk til þess að mótmæla kosningaóréttlæti í miðborg Moskvu. Mótmælin urðu með stærri mótmælum í Rússlandi í fleiri ár.