
Navalny var svo sjálfur handtekinn í dag þegar lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum stofnunarinnar.
Lögregla réðst inn á heimili Sjavedinovs með því að brjóta niður hurðina á íbúðinni. Þeir brutu SIM-kortið úr símanum hans sem hafði þegar verið gerður óvirkur yfir netið og tóku rafmagnið af íbúðinni.
Þvinguð herþjónusta
Navalny greindi frá þessu í morgun og sagði Sjavedinov hafa haft samband við sig í gær. Honum hafi tekist að hringja eitt símtal úr síma einhvers annars á herstöðinni í Íshafinu. Sjavedinov hafði beðist undan því að þurfa að gegna herþjónustu af heilsufarsástæðum.
Stjórnarandstæðingar í Rússlandi hafa líkt þessari þvinguðu herþjónustu við kúgun sovéskra stjórnvalda í Rússlandi, sem sendu þá sem ekki voru hliðhollir stjórnvöldum á afskekkta staði. Herþjónusta er orðið annað form frelsissviptingar, skrifaði Navalny meðal annars á samfélagsmiðla í dag.
Söguðu niður hurðina á höfuðstöðvunum
Navalny var svo sjálfur færður í varðhald í Moskvu eftir húsleit lögreglunnar í höfuðstöðvum stofnunar hans gegn spillingu. Honum var svo sleppt nokkru síðar.

Á upptökum öryggismyndavéla má sjá að lögreglan notaði vélknúin verkfæri til þess að saga niður hurðina inn í bygginguna þar sem stofnunin er til húsa. Hópur manna hófu svo að leita í húsinu, einhverjir þeirra höfðu grímur fyrir andlitinu. Allt þetta má sjá á upptökunum áður en límband er sett yfir linsu öryggismyndavélanna.
Gagnrýnir Pútín
Navalny hefur verið gagnrýninn á stjórn Vladimírs Pútín í Rússlandi. Hann hefur oft ætlað að bjóða sig fram sem forseta gegn Pútin en oftar en ekki verið færður í varð hald fyrir ýmsar sakir. Bandaríska fréttastofan Reuters hefur heimildir fyrir því að Navalny hafi ætlað að birta gagnrýnið myndskeið á vefnum síðar í dag.
Stofnun Navalnys gegn spillingu hefur sérhæft sig í að birta frásagnir sem afhjúpa spillingu opinberra starfsmanna í Rússlandi. Lögreglan rannsakar stofnunina hins vegar vegna ásakana um peningaþvætti. Rannsóknin hófst í ágúst eftir að Navalny hvatti fólk til þess að mótmæla kosningaóréttlæti í miðborg Moskvu. Mótmælin urðu með stærri mótmælum í Rússlandi í fleiri ár.