Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hanabann í smíðum á Akureyri

13.12.2011 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Örlög eina hanans á Akureyri verða fljótlega ráðin en samkvæmt nýjum reglum um búfjárhald sem nú eru í vinnslu á að banna hana í bænum.

Akureyrarbær vinnur nú að endurskoðun á samþykkt um búfjárhald en stærstu breytingarnar snúa að hænsnahaldi. Meðal annars verða hanar alfarið bannaðir, nema á lögbýlum.

Hanar á Akureyri eru ekki margir. Ef frá eru taldir ungfuglar sem ekki eru farnir að gala þá er einungis einn hani á Akureyri, hann Hrólfur sem er 18 mánaða gamall.

„Það eru ekki eins og það séu hanar hér í hverju húsi og það hefur ekki verið kvartað yfir Hrófli þannig að ég skil ekki afhverju það þarf að vera að setja þessar reglur. Á þá ekki að banna öll dýr sem heyrist í eins og hunda og ketti sem eru breimandi á nóttunni og geltandi í tíma og ótíma, sagði Sigurvin Jónsson, eigandi Hrólfs og hænsnabóndi á Akureyri í viðtali við fréttastofu RÚV.

Sigurvini finnst nóg um forræðishyggju yfirvalda og spyr hvort bærinn hafi ekki brýnni mál að leysa en búa til reglur vegna hanagals sem enginn hefur kvartað yfir. Ef bæjarstjórnin samþykkir reglurnar veit hann ekki hver örlög Hrólfs verða, hann mun a.m.k. berjast fyrir því að fá að halda honum.

„Ég ætla að vona hann verði ekki tekinn og höggvinn fyrir framan kofann einn góðan veðurdag. Þetta er gæðahani þannig ég reikna með því að halda honum bara áfram,“ sagði Sigurvin að lokum.