Eiríkur segir að hugmyndin að Hans Blævi hafi kviknað þegar hann var að lesa sér til um öfgahægrimenn og fasisma þegar hann var að vinna að Illsku.
Hans Blær á vígvellinum miðjum
„Það sló mig þegar ég var lesa mér til um evrópsku populistaflokkana hvað það var mikið af til dæmis konum í forsvari fyrir flokkanna. Allt sem er öfugt við ímyndina af leðurstígvélaða nasista er svo góður frontur. Eins og Ayan Hirsi Ali, það er svo þægilegt að fá svarta múslimakonu til að tala illa um múslima, eða Milo Yiannopoulos, sem er samkynhneigður alt-right diet fasisti.“
Hann hafi viljað skrifa verk sem fjallaði meðal annars um þetta ósamræmi.
„Þú ert með vígvöll. Meiri parturinn af þeim sem eru vinstra megin á vigvellinum þolir ekki og ýtir út hinum dónalegu og ágengu og transgressífu. Og meirihlutinn af þeim sem eru hægra megin og íhaldsmegin í tilverunni ýtir burt þeim sem eru með eitthvað truflandi kyngervi - að þeim finnst - sem ógnar ættbálkastemningunni þeim megin. Þá endarðu með þennan áhugaverða stað, þar sem eru mikil átök. Þú endar með eina manneskju sem stendur á vígvellinum miðjum og fær hvorki að vera með hérna megin eða þarna megin og verður að takast á við veröldina frá því sjónarhorni.“
Verkið verður að ganga fram af áhorfendum
En er markmiðið í sjálfu sér að ganga fram af fólki?
„Já og nei. Hans Blær er náttúrulega vísvitandi að reyna að ganga fram af fólki, það er módus operandi hánar, að stíga alltaf yfir línuna þannig að öllum blöskri. Þess vegna verð ég að gera það fyrir hann. Verkið verður líka að ganga fram af áhorfendum.“
„Ég fæ stundum á tilfinninguna að Eiríkur sé að trolla okkur,“ segir Vignir Rafn. „Með því að skrifa einhvern texta vitandi að við eigum eftir að segja hann upphátt fyrir framan fólk, því það er það erfiða.“
Fjallað var um Hans Blævi í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.