Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hamfarahlýnun og Feneyjar Afríku

04.02.2020 - 15:54
epa07451118 A storm washed away a layer of sand to reveal layers of waste embedded in the beach sand of the 400-year-old village of Ngor on the western most tip of Africa , Dakar, Senegal, 26 February 2019. Senegal is choking on plastic waste with tens of thousands of tons of it ending up in the ocean every year. A problem that is not only threatening the coastal population but also the economy. Due to a lack of comprehensive municipal waste management mechanisms communities have engaged in their own clean ups in some villages. Environmentalists urge a change of policy regarding the use of plastics is urgently needed by government.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
Plast og annar úrgangur í fjörunni við bæinn Ngor í Senegal. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hamfarahlýnun er að gera út af við Feneyjar Afríku. Saint-Louis í Senegal var höfuðborg nýlenduveldis Frakka í 250 ár en er nú að sökkva í sæ eins og fjöldi annarra borga og bæja. Rúmlega hundrað milljónir manna á vesturströnd Afríku þurfa hugsanlega að flýja flóðasvæði í náinni framtíð.

Ameth Diagne bendir á tré sem marar í kafi úti á ballarhafi. Það er varla greinanlegt enda fimmtíu metra frá stöndinni. Fyrir þrjátíu og fimm árum samþykkti konan hans undir þessu tré að eyða með honum æfinni. Í þá tíð var tréð við aðaltorg Doun Baba Dieye, lítils fiskiþorps í útjaðri Saint-Louis í norðurhluta Senegal. Þetta einmanalega tré og rústir skólans er það eina sem enn sést af þorpinu. Allt annað er einn og hálfan metra undir sjávarmáli. Þorpshöfðinginn fyrrverandi, Ameth Diagne, segir við Guardian að þarna úti á ballarhafi sé öll hans saga sokkin í sæ. 

Á heimsminjaskrá Unesco

Í Saint-Louis búa 230 þúsund manns og borgin er á heimsminjaskrá Unesco. Hún er oft kölluð Feneyjar Afríku enda er hún við ósa fljótsins Senegal við strönd Atlantshafsins. Senegal er vestast í Afríku, sunnan Máritaníu og Sahara, norðan við Gíneu-Bissá. Frakkar völdu Saint Louis sem höfuðborg nýlenduveldisins enda vel í sveit sett. Hlýnun jarðar og hækkun á yfirborði sjávar ógnar nú tilvist borgarinnar. Flóð og eyðilegging eru daglegt brauð. Mörg þúsund íbúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín og hús eyðileggjast reglulega í flóðum. Mörg hundruð börn sækja skóla á kvöldin í stað morguns, skólanum skolaði á haf út. Alþjóðabankinn, sem nýverið varði sem svarar þremur og hálfum milljarði króna til að berjast gegn afleiðingum hamfarahlýnunar í Saint-Louis, áætlar að tíu þúsund bæjarbúar hafi þegar misst heimili sín eða búi í mikilli hættu við ströndina.

Hundrað og fimm milljónir á flóðasvæði 

Þetta er þó aðeins forsmekkurinn. Samkvæmt rannsókn yfirvalda verða áttatíu prósent borgarinnar á flóðasvæði fyrir árið 2080 og hundrað og fimmtíu þúsund manns þurfa að flýja heimili sín fyrir þann tíma. Meginhluti sjávarbyggðar í Vestur-Afríku er undir sömu sök seldur. Þar búa hundrað og fimm milljónir manna, kvenna og barna.

Afleiðingar loftslagsbreytinga

Mangone Diagné hjá umhverfisráðuneytinu segir í Guardian að staðan sé skelfileg. Saint-Louis sé umflotin og algjörlega berskjölduð fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Borgin sé einfaldlega að sökkva í sæ, bæði af völdum manna og náttúrunnar. Meiriháttar mistök voru gerð árið 2003 þegar Senegal fljótið var við það að fljóta yfir bakka sína í miklu votviðri. Bæjaryfirvöld ákváðu að gera stærðar áveituskurð sem létti álaginu af fljótinu tímabundið en síðan hefur skurðurinn stækkað verulega. Nú er hann sex kílómetra breiður og hefur í raun skorið landið í sundur og gert hluta þess að eyju. Saltur sjór hefur flætt inn og nánast útrýmt mörgum sjaldgæfum fuglategundum og ekki síður fiskinum sem áður var nýttur í stórum stíl. Fiskimennirnir hafa þurft að leita á önnur og mun verri mið með tilheyrandi hörmungum. Kókostré og fenjaviður sem áður veitti mikilvæga vörn fyrir ágangi sjávar hefur drepist í stórum stíl. Uppskera bænda hefur hrunið á stórum svæðum fyrir vikið.

Fiskveiðar ekki lengur framtíðin 

Áðurnefndur Ameth Diagne, sem bað sér konu undir tré sem nú er á hafsbotni, þurfi að yfirgefa heimili sitt eins og átta hundruð aðrir þorpsbúar í Doun Baba Dieye. Þorpsbúar höfðu alla tíð lifað á fiskveiðum en heimkynnin og lífsbjörgin sokkin í sæ. Öldum saman höfðu feður kennt sonum sínum að sækja gull í greipar Ægis. Fimm synir Ameths eru allir í skóla, þeir tveir elstu í háskóla. Hann vill veita þeim tækifæri í lífinu. Fiskveiðar eru ekki lengur framtíðin. 

Nýr varnargarður hruninn

Haustið 2017 lagði fjögurra metra flóðbylgja þorpið GuetN´dar í rúst en það er rétt norðan við Saint-Louis. Hundrað heimili skoluðust á haf út, skólinn, moskan og stór hluti kirkjugarðsins. Þorpsbúar voru fluttir tímabundið í flóttamannabúðir. Emmanuel Macron Frakklandsforseti kom á flóðasvæðið og gaf tvo milljarða til að styrkja flóðavarnir í þorpinu. Tveimur mánuðum síðar var varnarveggurinn að mestu hruninn og Atlantshafið gat óhindrað haldið eyðileggingunni áfram.

Trjágróður til flóðavarna 

Ameth Diagne segist ekki treysta á utanaðkomandi aðstoð. Hann fer fyrir hópi fólks sem ræktar fenjavið og furuvið sem hann vonar að bindi jarðveginn í baráttunni við ágang sjávar. Hann vonast enn til að flytja aftur í þorpið sitt sem hvílir nú á hafsbotni.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV