Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hálslón brýtur úr friðlandi Kringilsárrana

11.07.2019 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kringilsárrani 2018 fyrir bakka - Landsvirkjun
Öldugangur á Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar hefur brotið niður land í friðlandinu í Kringilsárrána og sandur úr lóninu getur fokið yfir gróður við lónið. Landsvirkjun beitir ýmsum aðferðum til að verja landið eins og bakkavörnum, sandgryfjum og uppgræðslu.

Á bökkum Hálslóns er gríðarlegt magn af fínum sandi og frá upphafi Kárahnjúkavirkjunar hefur verið unnið að ýmsum mótvægisaðgerðum til að sporna gegn því að sandur úr lóninu berist inn á gróið land. Eitt að skilyrðum fyrir virkjunarleyfinu var að fjúkandi sandur úr Hálslóni kæfi ekki gróður þar í kring. „Þetta er sem sagt austan við Hálslón og hér hefur verið stunduð uppgræðsla síðan 2009 til þess að búa til gróður sem er þá betur í stakk búinn til þess að taka við áfoki og eyðast ekki. Líka til þess að stoppa áfok að fara lengra inn í landið,“ segir Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi hjá Landgræðslunni.

Vegurinn er varnarlínan og einhver sandur berst þar yfir. Að styrkja gróðurinn á víglínunni er eins konar eilífðarverkefni. Þetta er dæmi um áfok sem hefur borist frá strönd Hálslóns og hérna yfir á gróið land og er bara að safnast fyrir og getur sum staðar verið töluvert djúpt. En samt sagt gróður hér á svæðinu er lykilatriði til að stoppa þetta fok að fara lengra,“ segir Guðrún.

Með fram strandlengjunni má sjá líka sandgryfjur á löngum kafla. „Þær eru hluti af mótvægisaðgerð með austurströnd Hálslóns og hlutverk þeirra er að fanga sandinn þannig að við séum ekki að fá hann yfir á veg og yfir á gróðurlendi hinum megin,“ segir Árni Óðinsson, starfsmaður í Fljótsdalsstöð Landsvirkjunar.

Þegar Hálslón fylltist í fyrsta sinn fór það yfir hluta friðlandsins í Kringilsárrana, og miðast friðlandið nú við upphaflega strandlínu lónsins. Þegar öldur eru á lóninu étur það úr ströndinni og á Landsvirkjun á að verja svæðið. Landbrot á rananum hefur verið mismikið allt frá því að vera ekki neitt og upp í 20 metra á fimm árum. Landsvirkjun hefur verið með áfoksgirðingar gegn sandfoki og sumar var gerð tilraun með að bakkaverja 180 metra kafla við norðurodda ranans með grjóti úr lóninu. Umhverfisstofnun metur árangurinn og mögulega verða fleiri kaflar varðir. „Kringilsárrani er friðland frá 1975. Það var gert að friðlandi þá sérstaklega með tilliti til hreindýra hann væri griðastaður hreindýra. Síðan er þarna ýmislegt annað það eru jarðmyndanir og gróðurlendi sem menn vilja varðveita og passa upp á,“ segir Árni.

„Þessar varnir sem eru í gangi og vöktun er mjög mikilvæg en náttúrulega er svæðið ekki eins ásýndar og það var áður,“ segir Guðrún.

Myndin sem fylgir fréttinni er frá 2018 af svæði sem nú hefur verið bakkavarið.