Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Halli Reynis á Rósenberg 1. des 2006

Mynd með færslu
 Mynd: Rás 2

Halli Reynis á Rósenberg 1. des 2006

04.12.2019 - 13:59

Höfundar

Í Konsert vikunnar ætlum við að rifja upp tónleika með söngvaskáldinu Halla Reynis sem fóru fram á Kaffi Rósenberg 1. desember árið 2006 þegar Halli varð fertugur, en hann lést núna 15. september sl. 52 ára að aldri.

Tónlistarferill Halla hófst fyrir alvöru árið 1991. Hann var trúbadúr, söngvaskáld, og helstu fyrirmyndirnar íslenskar voru menn eins og Bubbi, Megas og Hörður Torfa.

Halli var duglegur, spilaði mjög mikið árum saman, oft mörg kvöld í viku auk þess sem hann gaf út 9 plötur á ferlinum, þá fyrstu árið 1993 og þá síðustu, Ást & Friður 2018.

Halli komst tvisvar með lag í úrslit Söngvakeppninnar, fyrst 2011 með lagið Ef ég hefði vængi og aftur árið 2013 með lag sem heitir Vinátta.

Árið 2008 ákvað hann af ýmsum ástæðum að leggja tónlistarferilinn á hilluna, amk. í bili, og skellti sér í skóla. Halli lauk B.Ed-gráðu sem grunnskólakennari frá HÍ árið 2012 og árið 2015 útskrifaðist hann með meistaragráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann starfaði við gítarkennslu um árabil og við tónmenntakennslu í Ölduselsskóla í Reykjavík frá árinu 2008 til dánardags.

Árið 2006 þegar Halli varð fertugur hélt hann tónleika á staðnum sem var hálfpartinn hans heimavöllur á þeim tíma, á Rósenberg við Klapparstíg. Við á Rás 2 sömdum við Halla og fengum að senda tónleikana út beint á afmælisdaginn hans og Rásar 2, 1. desember. Staðurinn var fullur af fólki og Halli í góðu formi, og það eru þeir tónleikar sem við ætlum að rifja upp í kvöld.

Hér á eftir fer texti sem Steinunn, eftirlifandi eiginkona Halla, skrifaði um hann daginn eftir að hann lést:
"Sunnudaginn 15. September lést hann Halli minn úr sjúkdómi sem hann hafði háð stríð við í mörg ár. Og það sem hann var búinn að berjast til þess að eignast betra líf. Hann hafði gríðarlegan lífsvilja sem kom honum þó þetta langt og hann vildi ekkert frekar en fá að vera hérna áfram með okkur. En sársaukinn varð að lokum óbærilegur og það slokknaði á lífsviljanum.
Við bjuggum saman í 21 í ár og vorum gift í 28 ár. Flest voru þau ár góð og gjöful og gáfu okkur meðal annars strákana okkar þrjá, búskap í öðru landi, ferðalög um allan heiminn, húsbyggingu í sveitinni og ótal margar góðar stundir með fjölskyldum okkar og öllum vinunum sem Halli laðaði að okkur alla tíð. Það var auðvelt að þykja vænt um Halla. Ég sendi með honum í síðasta ferðalagið bænina hans:
Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli."

Nýlega opnaði glæsileg minningasíða um Halla á netinu, en þar má t.d. sjá stutt viðtöl við ýmsa samferðarmenn Halla þar sem þeir segja frá kynnum sínum af honum. 

Konsert er á Rás 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05