Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Halldór Halldórsson: „Þetta er bara hneyksli“

19.01.2020 - 12:09
Mynd: Skjáskot / RÚV
Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í ofanflóðasjóði og fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir það algjörlega ófyrirgefanlegt að þeir peningar sem hafi runnið í sjóðinn skuli ekki hafa verið nýttir í ofanflóðavarnir. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, segir að stjórnvöld frá árinu 1997 beri þarna ábyrgð. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það ömurlega stöðu að það sé skammtað svona í þessi verkefni. „Falskt öryggi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson.

Ofanflóðasjóður og ofanflóðavarnir voru til umræðu í Silfrinu í dag eftir snjóflóðin á Flateyri í vikunni þar sem unglingsstúlka var hætt komin og nánast allur floti bæjarins sökk. 

8 til 12 verkefni sem bíða 

Fjárveitingar til ofanflóðasjóðsins hafa dregist saman síðustu ár þrátt fyrir að tekjur hafi aukist og Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í sjóðnum, segir þetta algjörlega ófyrirgefanlegt. „Það var farið af stað með metnaðarfulla áætlun eftir hörmungarnar 1995. Verkefnin bíða á færibandi og eru tilbúin og sveitastjórnarfólk hefur verið kalla eftir þeim. Við höfum næstum þrjá milljarða í tekjur en tveir milljarðar hafa verið settir í eitthvað annað.“ Það væri slíkt forgangsatriði að setja þessa peninga í ofanflóðavarnir að hann skilji ekki hvernig þetta gat gerst og þetta væri í raun ófyrirgefanlegt.

Halldór nefndi að það væru 8 til 12 staðir sem bíði og „við sem þjóð gætum aldrei fyrirgefið okkur ef það féllu snjóflóð á þá staði sem væru óvarðir.“ Áætlunin frá 1995 gerði ráð fyrir að framkvæmdum hefði átt að vera lokið fyrir 2010 en miðað við fjárheimildir síðustu ára yrði þetta ekki klárað fyrr en 2060. „Og það er bara hneyksli.“  

„Falskt öryggi“ og „ömurleg staða“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta ömurlega stöðu að skammtað væri með þessum hætti í þessi verkefni. „Kannski verður að setja lög sem banna ríkisstjórn að taka peninga sem eru merktir annars staðar. Þetta er ófyrirgefanlegt því þarna eru mannslíf í húfi.“ Hún sagði það sem hefði gerst í þessari viku væri bara birtingarmynd innviða sem hefðu verið vannærðir.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði mikla mildi að ekki hefði farið verr og að koma yrði í veg fyrir að þetta yrði ekki bundið við heppni heldur að stjórnvöld hefðu gert allt til að koma í veg fyrir svona. „Þetta er falskt öryggi og það eru ekkert allir með puttana á púlsinum hvert peningarnir fara.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði stjórnvöld frá 1997 bera þarna ábyrgð á að hafa ekki nýtt þá fjármuni sem væru eyrnamerktir ofanflóðasjóði. „Við þurfum að hraða framkvæmdum og skoða hvernig er hægt að bæta þessi mannvirki. Við þurfum að reyna að tryggja öryggi sem best þannig að fólk upplifi ekki vonir um eitthvað sem stenst ekki.“

Mynd: Skjáskot / RÚV