Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hallarekstur á ríkissjóði á næsta ári

08.11.2019 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Útlit er fyrir að ríkissjóður verði rekinn með halla á næsta ári, segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Staðið verður við áform um skattalækkanir, fjárfestingar og lengingu fæðingarorlofs.

Fjárlaganefnd Alþingis fjallaði í gær um nýja útreikninga fjárlagafrumvarps sem byggjast á nýrri hagspá. Samkvæmt þeim lækka til dæmis veiðigjöld vegna verri afkomu og mikilla fjárfestinga.  

„Tíðindin eru þau að ríkissjóður stendur sterkt og getur haldið sig við fyrri áform og áætlanir,“ segir Willum Þór. Hann segir að breyting á ríkisfjármálastefnu stjórnarinnar þýði að hægt sé að milda höggið á þjóðfélagið af verri afkomu en síðustu ár. Þegar var búið að ákveða að í stað 30 milljarða afgangs yrði ríkissjóður rekinn í jafnvægi. Það breytist líka. „Það má reikna með því að við förum í eilítinn halla. Þetta gerum við til að mæta verri hagspá og styðja við hagkerfið.“

Willum Þór segir að staðið verði við fjárfestingar, skattalækkanir í takt við lífskjarasamninginn og lækkun tryggingagjalds auk þess sem fæðingarorlof verði lengt, svo dæmi séu tekin.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV