Hálfur milljarður úr keyptum Panama-gögnum

15.07.2017 - 18:58
Ríkisskattstjóri hefur krafið 16 einstaklinga um tæpan hálfan milljarð króna í vangoldna skatta á grundvelli upplýsinga úr Panama-skjölunum sem keypt voru á 37 milljónir fyrir tveimur árum. Talið er líklegt að allt innheimtist og talan gæti enn hækkað.

Ríkisstjórnin ákvað í apríl 2015 að kaupa upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum á 37 milljónir. Ekki kom fram hver seljandinn var, en gögnin reyndust vera frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama og í þeim voru 349 íslenskir einstaklingar nefndir og 61 aflandsfélag með íslenska kennitölu, alls 410 íslenskir skattaðilar.

Tólf óskað sjálfir eftir endurupptöku

Skattrannsóknarstjóri fékk gögnin í hendur, ákvað að taka 34 nöfn til sérstakrar rannsóknar vegna gruns um refsiverð brot og hefur síðan vísað nokkrum þeirra til héraðssaksóknara, fellt önnur niður og sum eru enn til rannsóknar. Þau nöfn sem skattrannsóknarstjóri tók ekki til rannsóknar, 376 talsins, fóru hins vegar inn á borð til Ríkisskattstjóra.

Samkvæmt svari Ríkisskattstjóra við fyrirspurn fréttastofu hefur þetta nú leitt til þess að búið er að endurákvarða skatt á fimm einstaklinga, upp á 147 milljónir, auk þess sem mál þriggja einstaklinga til viðbótar eru mjög langt komin, þar sem áætluð endurákvörðun nemur 140 milljónum en gæti enn tekið einhverjum breytingum.

Þá hafa tólf manns óskað sjálfir eftir endurupptöku skattframtala sinna eftir að hafa fengið fyrirspurnarbréf frá skattinum um aflandseignir sínar. Búið er að ljúka átta slíkum málum og nam endurálagningin þar samtals um 200 milljónum.

Að langmestu leyti auðlegðarskattur

Samtals eru þetta um 487 milljónir og þetta er að langmestu leyti auðlegðarskattur, sem var í gildi á árunum 2011 til 2015 og nam allt að tveimur prósentum á eignir einstaklinga umfram 75 milljónir og samskattaðra hjóna umfram 100 milljónir. Það er því ljóst að skattstofnin að baki þessum 487 milljónum hleypur á mörgum milljörðum.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu telur Ríkisskattstjóri að þessi endurákvarðaði skattur muni innheimtast að fullu.

Tuttugu aflandsmál til viðbótar sem tengjast keyptu gögnunum eru í vinnslu og líkleg til niðurstöðu, að því er segir í svari Ríkiskattstjóra, þótt óvarlegt sé að leggja mat á hve mikið muni skila sér í ríkissjóð vegna þessara mála þegar upp verði staðið.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi