Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Haldinn sköpunargræðgi á háu stigi

Mynd: RÚV / RÚV

Haldinn sköpunargræðgi á háu stigi

16.03.2017 - 12:11

Höfundar

„Mér finnst ég deyja ef ég er ekki sískapandi, þá finnst mér ég breytast í kjötstykki,“ segir Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður og rithöfundur.

Frá Sigurði er komin ný bók, sem nefnist Musa. Í bókinni skrifar hann um samband sitt við listgyðjuna, Musuna. Sigurður er staddur í því sem hann kallar myndlistarkrísu og ætlar að leysa það með því að skrifa bók, líkt og hann segist áður hafa gert. Hann lendir í ritstíflu, veikist af lungnabólgu og er lagður inn á spítala. „Mér finnst það mjög ógeðslegt orð reyndar, ritstífla,“ segir hann.

Sigurður segist vera haldinn sköpunargræðgi á háu stigi. „En nú er ég orðinn gamall karl, sköpunargáfan er frekar gefin ungu fólki en svona gömlum körlum eins og mér. En ég neita því í þessari bók, streitist á móti slíku óréttlæti, hvort sem þetta eru lög náttúrunnar eða guðanna. Ég gefst ekki upp.“