Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hakkarahópur segist hafa ráðist á Isavia

10.06.2019 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Svo virðist sem netárásirnar á heimasíðu Isavia í dag séu sprottnar undan rifjum tyrknesks hakkarahóps, Anka Neferler Tim. Tyrkneski fjölmiðillinn Yeni akit segir að hópurinn hafi beint spjótum sínum að íslenskum vefsíðum til að hefna fyrir móttökur tyrkneska karlalandsliðsins í fótbolta á Keflavíkurflugvelli í gærkvöld.

Í frétt á vef Yeni akit segir að síða Isavia hafi legið niðri í nokkrar klukkustundir í dag. Það er er rekið til árása Anka Neferler Tim.

Á Twitter-síðu hakkarahópsins eru nokkrar færslur þar sem fjallað er um árásir á íslenskar síður. Þar er tiltekið að hluta vefs Isavia hafi verið lokað og að árásunum verði haldið áfram.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var gerð ddos árás á vef fyrirtækisins, þar sem árás nokkur þúsund sýndarnotenda er gerð á síðuna. Vefurinn er að mestu sýnilegur notendum eins og staðan er núna. Þó getur fólk lent í vandræðum með að komast inn á síðuna í einhverjum tilfellum. Tæknimenn Isavia hafa unnið að því að verjast árásum á síðuna.

Uppfært 21:49 Fleiri lentu í vandræðum en Isavia í kvöld. Vefur Sunnlenska liggur niðri. Á facebook-síðu fjölmiðilsins segir að Sunnlenska hafi fengið heimsókn frá tyrkneskum hakkara. Slökkt var á vefnum meðan unnið er að lausn málsins.