Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Háhyrningurinn kominn úr höfninni

31.08.2019 - 02:06
Mynd: Þorsteinn Ægir Egilsson / Þorsteinn Ægir Egilsson
Björgunarmenn úr Hafliða Þórshöfn lögðu af stað í land um klukkan eitt í nótt eftir að hafa fylgt háhyrning út fyrir varnargarð hafnarinnar. Björgunarsveitin var kölluð út í kvöld eftir að tilkynning barst um hval sem væri fastur í grótgarði í höfninni.

Þorsteinn Ægir Egilsson var einn þriggja björgunarsveitarmanna sem tók þátt í að koma háhyrningnum aftur út í sjó og út fyrir höfnina. Hann sagði í samtali við fréttastofu að hvalurinn virtist eitthvað vankaður. Hann væri þó á lífi og blési vel frá sér. 

Það gekk hægt að koma háhyrningnum út fyrir höfnina. Þorsteinn sagði hann hafa verið gjarnan á að fara aftur upp í grjótgarðinn. Um klukkan eitt náðu björgunarmenn loks að koma háhyrningnum út fyrir varnargarðinn. Þorsteinn sagði hvalinn hafa verið skilinn eftir samkvæmt ráðleggingum frá MAST. Skepnan væri þó enn nokkuð vönkuð eftir volkið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV