Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Háhyrningar syntu til Ítalíu frá Íslandi

17.12.2019 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Marie Mrusczok
Fimm háhyrningar sem myndaðir voru við Ísland 2017 hafa fundist við Genúa á Ítalíu með um 5200 kílómetra að baki. Hvalirnir virðast ekki við góða heilsu og kálfur í hópnum drapst.

Þetta er einn lengsti leiðangur háhyrninga sem vitað er um. Kennsl voru fyrst borin á tarfinn í hópnum með hjálp myndabanka íslensku samtakanna Orca Guardians af bakuggum háhyrninga. Þá voru teknar myndir af bakuggum dýranna við Genúa og bornar saman við þær Íslensku. Hópurinn var fyrst myndaður úti fyrir Snæfellsnesi 2014 og sást síðast við Íslandsstrendur 2017.

Marie Mrusczok, forsprakki Orca Guardians, segir það mjög óvenjulegt fyrir háhyrninga að synda svo langt.

„ Við höfum borið kennsl á háhyrninga á milli Skotlands og Íslands. Það eru 22 háhyrningar sem sveima þar á milli. Hins vegar höfum við ekki vitað til þess að dýrin fari milli Íslands og Ítalíu,“ segir hún.

Óvíst er með heilsufar hvalanna. Kálfur í hópnum drapst nýlega. Hin dýrin halda sig við Genúa og virðast hálfdösuð. Marie segir að ekki sé vitað hvað veldur.

„Þeir eru með svokallað hnetuhöfuð. Sem þýðir að hnakkaspik þeirra sé farið. Það vísar yfirleitt til þess að þeir séu við bága heilsu og hafa ekki étið nóg,“ segir Marie.