Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Haha, ég er með krabbamein“

Mynd: Ingibjörg Rósa / Ingibjörg Rósa

„Haha, ég er með krabbamein“

11.09.2019 - 14:25

Höfundar

Brjóstakrabbamein er ekkert gamanmál, það veit ekki síst fólk sem hefur upplifað það eða átt ástvini sem glímt hafa við sjúkdóminn. Þegar Ingibjörg Rósa Björnsdóttir greindist bjó hún fjarri fjölskyldu og ástvinum í Edinborg. Í veikindum og einangrun kom hún sér í gegnum erfiða tíma með húmorinn að vopni.

Það brá flestum í brún þegar uppistandarinn Ingibjörg Rósa kom fram í miðri krabbameinsmeðferð, á uppistandi í Edinborg, og sagði á gamansaman hátt í míkrófón frá því að hún væri með krabbamein. „Fólki brá því ég var ekki búin að missa hárið og ég leit bara hraustlega út. Ég hafði stuttan tíma svo ég stökk upp á svið og sagði: „Haha, ég er með krabbamein!“ En gleymdi að taka fram að ég væri ekkert að deyja. Greyið krakkarnir í salnum héldu því að ég væri dauðvona að reyna að segja einhverja brandara,“ rifjar Ingibjörg upp kímin. „Það er nefnilega eitthvað sem ég vil að fólk skilji, það er ekki samasemmerki á milli þess að fá krabbamein og deyja. Það gerist, en það er líka hægt að læknast.“

Má gera grín að brjóstakrabbameini?

„Ég má það, af því að ég fékk brjóstakrabbamein,“ svarar Ingibjörg. Hún er stödd á Íslandi um þessar mundir og ætlar að koma fram tvisvar 12. og 15. september í Secret Cellar á Lækjargötu og flytja efni sitt. Uppistandið heldur hún til styrktar Krafti stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein, í minningu Ingveldar Geirsdóttur vinkonu Ingibjargar sem lést í apríl á þessu ári úr þessum illvíga sjúkdómi. 

„Ég er pínu klikkuð sko og reyni að gera grín að öllu enda er ég úr þannig fjölskyldu að við reynum að takast á við allt með gríni,“ segir hún sposk, þegar hún var spurð að því hvernig hugmyndin að uppistandinu hafi kviknað. „Ég var aðeins búin að prófa uppistand í Edinborg en fannst það ekki virka og ég var búin að hugsa að það væri ekkert nógu merkilegt við mitt líf til að ég gæti verið með uppistand. Þá sendi alheimurinn mér brjóstakrabbamein.“

Krabbamein í jólagjöf

Hún greindist um jólin, fékk að eigin sögn krabbamein í jólagjöf og segir að þó að það sé aldrei góður tími að fá slíkar fréttir sé það sérstaklega erfitt yfir hátíðirnar. „Ég var auðvitað í öðru landi og lagði mig fram við að fela þetta fyrir fólki því ég vildi ekki skemma jólin fyrir neinum. Svo var ég bara upptekin á þessum tíma, var með mörg járn í eldinum. Eftir áramótin átti að vera mjög mikið um að vera hjá mér, ég ætlaði mér að halda uppistandshátíð á Íslandi og kenna í háskólanum. Þetta setur allt í uppnám.“

Það var súrrealískt að fá þessa greiningu og til að ná utan um áfallið þurfti Ingibjörg, að eigin sögn, að grínast. „Svo náttúrulega hafði ég ekkert að gera, lá bara heima að jafna mig eftir aðgerð og bíða eftir að fara í lyfjameðferð, og þá byrjuðu brandararnir að spretta fram.“ Ingibjörg skráði sig á svokallað open mic kvöld. Viðbrögðin voru þó ekki þau sem Ingibjörg hafði vonast til. „Þegar ég byrjaði að varpa fram krabbameinsbröndurum þá fór það misvel í hópinn. Ég áttaði mig á því að það er erfitt að gera svona á fimm mínútum, maður þarf að hita fólk upp, fá þau til að venjast sér og treysta áður en sprengjunni er varpað.“

Þó að Ingibjörg hafi komist í gegnum veikindin með húmorinn að vopni þá var reynslan henni síst af öllu léttvæg, ekki síst þar sem hún býr fjarri fjölskyldu sinni. „Ég er einfari í eðli mínu en ég þurfti að kyngja stoltinu og viðurkenna að ég þyrfti hjálp og aðstoð. Ég varð að sætta mig við að fólk kæmi að hjúkra mér og hjálpa enda komu dagar þar sem ég komst varla fram úr rúminu og gat ekki bjargað mér sjálf.“

Verður aldrei sama manneskja að meðferð lokinni

Reynslan breytir lífinu sem verður aldrei samt, samkvæmt Ingibjörgu. „Þú ferð í ferðalag upp mjög bratt fjall og þegar meðferð lýkur þarftu að finna leiðina niður. Þú getur aldrei endað á sama stað og þú byrjaðir,“ segir hún. „Ég er rétt að leggja af stað, ég kláraði meðferðina 2. ágúst og er enn að velja bestu leiðina.“

Hún segir að þó að hún hafi aldrei talið að það væri komið að endalokum hjá sér þá breyti reynslan sýn hennar á lífið. „Þetta fékk mig til að átta mig á að ég hafi ef til vill ekki eins mikinn tíma og ég hafði áður haldið. Mig langar til dæmis að ferðalst miklu meira. Í meðferðinni límdi ég landakort á vegginn og horfði á það og planaði ýmis ferðalög og margar reisur.“

Sumt er betra að láta ósagt

„Krabbamein í sjálfu sér er ekkert fyndið en ég hlæ að því hvernig ég bregst eða brást við uppákomum sem maður lendir í í svona meðferð. Ég ákvað að vera opin með ýmislegt sem þessu tengist strax, eins og klósettferðir, kynlíf og kynhvöt, sem ég get gert grín að. Á sama tíma er ég að koma skilaboðum á framfæri. Ég er að reyna að fræða fólk um hvað felst í þessu og hver viðbrögð annars fólks eru.“ Þó að fólk meini vel geta viðbrögð þeirra oft verið óviðeigandi og taktlaus, að sögn Ingibjargar og það spaugar hún með í uppistandi sínu. „Ég bendi fólki á gamansaman hátt að sumt sé betra að láta ósagt.“

Ágóði sýningarinnar rennur sem fyrr segir til Krafts í minningu vinkonu Ingibjargar, Ingveldar Geirsdóttur, sem var með Ingibjörgu í Fjölbraut og vann með henni á Morgunblaðinu. „Ég komst ekki í jarðarförina hennar enda sjálf í miðri meðferð og mér fannst það leiðinlegt. Þetta er neyðarsjóður fyrir ungt fólk sem greinist og lendir í fjárhagserfiðleikum.“ 

Sigmar Guðmundsson og Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir tóku viðtal við Ingibjörgu Rósu og má hlýða á það allt með því að smella á myndina efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ólafur Ragnar er í rauninni ég“

Menningarefni

Eina lesbían í uppistandi á Íslandi

Sjónvarp

Hannah Gadsby í Eldborg