Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hagnaður Arion um helmingi minni en í fyrra

08.05.2019 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 1,0 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 2,1% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 3,6% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,2% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 4,8% á sama tímabili árið 2018. 

Stefán Pétursson bankastjóri segir í tilkynningu að óreglulegir lðir geri það að verkum að afkoma fyrsta ársfjórðungs valdi vonbrigðum. „Regluleg starfsemi bankans fer hins vegar batnandi og vaxa helstu tekjuliðir eins og vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi borið saman við fyrsta ársfjórðung síðasta árs. Vaxtamunur helst stöðugur þrátt fyrir lægri verðbólgu auk þess sem aðgerðir bankans sem snúa að hagstæðari fjármögnun hafa ekki komið fram nema að litlu leyti. Hvað óreglulega liði varðar þá eru það einkum gjaldþrot WOW air og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli gegn Valitor sem hafa neikvæð áhrif á afkomuna en sala bankans á hlut sínum í Farice vegur upp á móti. Einnig hefur hægt á í hagkerfinu sem dregur úr tekjuvexti og eykur almennar niðurfærslur, en þær taka mið af væntingum um þróun efnahagslífsins,“ er haft eftir Stefáni í afkomutilkynningu.

Stefán ítrekar í tilkynningunni að dótturfélag Arion banka, Valitor, sé í söluferli og ætlunin að selja félagið að hluta eða fullu. „Nauðsynlegur undirbúningur er vel á veg kominn og gerum við ráð fyrir fyrstu fundum með væntanlegum kaupendum á næstu vikum. Væntum við þess að niðurstaða fáist í söluferlið á þessu ári. Nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem félagið var dæmt til að greiða 1,2 milljarða króna í skaðabætur, hefur ekki áhrif á söluferli félagsins. Í apríl samdi Valitor á ný við Stripe, til tveggja ára, en félagið er eitt af fremstu fyrirtækjum á sviði fjártækni í heiminum,“ segir bankastjórinn í tilkynningunni.

Hér má lesa meira um uppgjör Arion.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV