Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Haglél rústaði uppskeru bænda

16.06.2019 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd úr safni
Bændur í suðausturhluta Frakklands horfa fram á uppskerubrest og tekjumissi eftir að haglél á stærð við borðtenniskúlur olli miklu tjóni á búum þeirra.

Franskir bændur vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið í gær þegar stormur geisaði í suðausturhéruðum landsins. Haglið eirði engu sem fyrir varð og jafnvel net sem bændur höfðu strengt yfir tún sín reyndust engin vörn gegn éljum á stærð við borðtennisbolta.

Gregory Chardon, sem á bú nærri Lyon, sagði að nær öll uppskera hans hefði eyðilagst í óveðrinu. Apríkósur, ferskjur og kirsuber sem hann ætlaði að tína og flytja á markað innan skamms lágu eins og hráviði á jörðinni, engum til gagns. Epla- og apríkósubóndinn Aurelien Esprit var engu upplitsdjarfari og sagði að ekkert yrði af uppskeru hjá sér eftir þessa miklu ofankomu.

Landbúnaðarráðherra Frakklands sagði að ríkið myndi lýsa yfir neyðarástandi svo að bændur fengju tap sitt greitt. Hann sagðist sjaldan hafa séð annað eins og bætti við að það mætti ekki gerast að óveðrið leiddi til gjaldþrots hjá bændum.

Það voru ekki aðeins tún og uppskera bænda sem skemmdust. Rúður í bílum og húsum brotnuðu, þök skemmdust og fólk slasaðist.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV