Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafró og útgerðin sömdu um kostnað við loðnuleit

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Samkomulag hefur náðst milli útgerðanna og Hafrannsóknastofnunar vegna loðnuleitar. Stofnunin greiðir útgerðunum um helming kostnaðar vegna leitarinnar og treystir á aukið fjármagn frá stjórnvöldum.

Útgerðir uppsjávarskipa ætla að leggja Hafrannsóknastofnun lið við loðnuleit og mælingar í vetur. Tvö skip frá útgerðinni leita með Árna Friðrikssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar. Hafró greiðir útgerðunum um helming kostnaðar við úthald skipanna, um 30 milljónir. Þetta kemur fram á mbl.is.

Hafró treystir á aukið fjármagn

Þetta staðfestir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og sagði samkomulag hafa náðst á fundi síðdegis í gær. Það sé mikill léttir enda mikilvægt að ná góðri mælingu. Hann reiknar með að ná tveimur góðum mælingum, einni í janúar og annarri í febrúar. Kostnaður útgerðanna vegna þessa sé um 60 milljónir sem sé skipt jafnt á milli Hafró og útgerðanna.

Hann segir Hafrannsóknastofnun borga þessar 30 milljónir enda sé leitin þeirra hlutverk. Hann treysti því þó að stjórnvöld komi til móts við þá með auknu fjármagni. Það sé enn ekki fyrir hendi en þeir njóti stuðnings stjórnvalda.

Spurður að því hvernig fari fái þeir ekki aukið fjármagn segir Sigurður að þeir séu að útfæra lausnina. Þeir reikni með auknu fjármagni en komi það ekki til þurfi að endurhugsa hlutina. Það segi sig sjálft að peningarnir þurfi að koma einhvers staðar frá og þá gæti jafnvel komið til þess að stytta loðnuleit í haust á móti.