Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafna Þ-H leið um Teigskóg

Mynd með færslu
 Mynd:
Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, og Karl Kristjánsson, sem situr í sveitarstjórn, mynduðu meirihluta í skipulagsnefnd hreppsins og höfnuðu Þ-H leið Vestfjarðavegar sem felur í sér lagningu vegs um Teigsskógs. Þeir leggja R leiðina til, þar sem vegur er lagður um Reykhóla og þverar Þorskafjörð. Greidd verða atkvæði um skipulagsbreytingar sem gera ráð fyrir Þ-H leið á sveitarstjórnarfundi á þriðjudag.

BB.is greinir frá. 

Í sex blaðsíðna greinargerð sem lesa má í fundargerð hrekja Ingimar og Karl það að Þ-H leiðin sé vænlegasti kosturinn fyrir Vestfjarðaveg. Engin þörf sé á að setja leiðina inn í aðalskipulag Reykhólahrepps þar sem nánast hver einasti metri Teigsskógs nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 61. grein náttúruverndarlaga. Þá er Vegagerðin vænd um að þvinga sveitarstjórn til að samþykkja Þ-H leiðina. 

R-leið var samþykkt í skipulagsnefnd Reykhólahrepps í janúar en var svarað með undirskriftum um þriðjungs kosningabærra íbúa þar sem leiðarvali var mótmælt. í framhaldi kaus sveitarstjórn Þ-H leið um Teigsskóg fram yfir tillögu skipulagsnefndar. Við aðalskipulagsbreytingartillögu sem gerir ráð fyrir Þ-H leið bárust 44 athugasemdir þar sem mikill meirihluti lagðist gegn leiðarvalinu. 

Ákvörðunarvald liggur nú aftur hjá sveitarstjórn sem fundar á þriðjudag. Þar verða greidd atkvæði um aðalskipulagsbreytingartillögu og þar með hvort samþykkja skuli veg um Teigsskóg eða hvort endurskoða eigi leiðarval að nýju.