Hafði fulla heimild fyrir nýjum samningum

01.11.2019 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra hafa haft fulla heimild til þess að semja við yfir- og aðstoðayfirlögregluþjóna um nýtt launasamkomulag sem færir þeim aukin lífeyrisréttindi. Ákvörðunin var umdeild og óskaði dómsmálaráðherra skýringa á henni, sem hún hefur nú fengið.

„Rík­is­lög­reglu­stjóri svaraði þeim spurn­ing­um og vanga­velt­um sem ég var með og af hans skýr­ing­um er ljóst að hann hafði fulla heim­ild til þess­ara ákv­arðana,“ seg­ir Áslaug í samtali við mbl.is, sem greinir frá. 

Áslaug segir að vinna vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga hjá lögreglunni hafi gengið vel. Enn sé sameining lögregluembætta á Suðurnesjunum til skoðunar sem og sameining embættis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og embættis ríkislögreglustjóra. Hún búist við því að kynna tillögur, fyrir þeim aðilum sem málið varðar, í mánuðinum og fá við þeim viðbrögð.

Greint var frá því í október að Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóri á Vesturlandi, geri alvarlegar athugasemdir við samkomulag um bætt kjör. Aðstoðar- og yfirlögregluþjónarnir verði með hærri laun en sjö af níu lögreglustjórum landsins, verði samkomulagið að veruleika. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi