Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa undirbúið sig með milljarðafjárfestingum

01.10.2019 - 16:13
Mynd: Fréttir / Fréttir
Harðari samkeppni, meðal annars frá litlum fjártæknifyrirtækjum var meðal þess sem knúði Arion banka til að segja upp hundrað starfsmönnum í síðustu viku. Bankinn hefur fjárfest í fjártækni og stafrænni fjármálaþjónustu fyrir tvo milljarða, svo sem þjónustu í Arion appinu, á vef og í netbanka, til að búa sig undir nýja tíma og enn harðari samkeppni.

Bankarnir opnast

Bankakerfið er að breytast. Það er talað um fjártæknibyltingu og í þeirri byltingu er fyrirhuguð innleiðing á nýrri greiðsluþjónustutilskipun Evrópusambandsins á greiðslumiðlun, PSD2, stórt atriði. Talað er um að verið sé að opna bankana og það á að stuðla að því að neytendum bjóðist betri kjör en þessi þróun getur reynst bönkunum erfið. Þeir þurfa að aðlagast eða hætta á að verða undir í samkeppni. Tilskipunin felur í sér að bankarnir sitja ekki lengur einir að því að vinna með bankaupplýsingar fólks. „Þeir verða að opna á greiðslumiðlunina sína og gera hana aðgengilega í gegnum fyrirfram skílgreindan samskiptamáta sem kallast API. Þá eiga önnur fyrirtæki greiðan aðgang inn í þetta, þetta eru innviðir sem hafa kannski verið svolítið lokaðir og einungis tilheyrt bönkunum,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion. Hann segir Landsbankann þegar hafa opnað á þessa þjónustu að hluta, Arion eigi það eftir.

Tilskipunin hefur í för með sér að ýmis fjártæknifyrirtæki geta unnið með gögn bankanna og boðið sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði greiðslumiðlunarappa.

Stafræna byltingin opnaði á tengsl við hugbúnaðarfyrirtæki

Benedikt segst fyrst hafa heyrt orðið fjártækni fyrir nokkrum árum.  Þegar þjónusta banka var færð yfir á stafrænt form hafi fyrirtæki sem vinna að hugbúnaðarþróun getað farið að tengjast bönkunum í auknum mæli. Upp á síðkastið hafi fjártæknifyrirtæki svo gert minni fjármálafyrirtækjum kleift að keppa í auknum mæli við hefðbundna banka. Nú er útlit fyrir að samkeppnin verði enn meiri með innleiðingu nýju tilskipunarinnar. 

„Við þurfum auðvitað bara á hverjum tíma að haga okkar rekstri þannig að hann taki mið af aðstæðum og umhverfinu, ef við gerum það ekki lendum við bara í því að okkar rekstur verður veikari en annarra. Við erum að reyna að koma í veg fyrir það að verða fyrirtæki sem á endanum er með vörur sem enginn hefur áhuga á að kaupa,“ segir Benedikt.  

Aðlögunarhæfni

Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, sagði í Speglinum á föstudaginn var að það væri mikil óvissa framundan hjá bönkunum. Fjártæknibyltingin geti reynst þeim erfið. „Það er eins og alltaf er þegar svona mikið tímabil breytinga kemur þá tapa þeir sem stinga höfðinu í sandinn en þeir sem reyna að taka þátt í breytingunum á uppbyggilegan hátt þeir hagnast þá frekar ef þeir geta breytt þessu í mikið tækifæri. Það er gaman að taka dæmi af því þegar bíllinn kom fyrst á markað. Þá voru ýmis fyrirtæki sem höfðu verið að framleiða hestvagna sem gátu áfram selt boddí á bílana, það voru fyrirtæki sem framleiddu dekk á hestvagna sem fóru þá að framleiða dekk á bílu og það er frægt að þeir sem framleiddu svipur, þeir urðu gjaldþrota,“ sagði Gunnlaugur.

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Arion hefur til dæmis unnið með fjártæknifyrirtækinu Meniga.

Símafyrirtækin gengið í gegnum svipað

Benedikt segir þetta dæmi Gunnlaugs lýsa þróuninni vel. „Ef maður vill skoða nýlegri samanburð þá væri réttast að skoða hvernig fyrirkomulag fjarskipta- og farsímaþjónustu var fyrir kannski fimmtán árum síðan og horfa síðan á það hvernig þessi fyrirtæki, til dæmis Síminn, Nova og Vodafone starfa í dag. Þeirra viðskiptamódel hefur bara gjörbreyst frá því að taka miklar tekjur af sms-sendingum og farsímareikningum í að byggja sitt tekjumódel á allt öðrum þáttum, gagnaflutningum og slíku. Það þarf mikla aðlögunarhæfni og það má segja að það sem við gerðum í síðustu viku hafi verið viðleitni í þá átt að reyna að aðlaga okkur breyttum aðstæðum.“ 

„Gríðarleg fjárfesting“

En er Arion þá tilbúinn fyrir innleiðingu PSD2? „Já, við erum að undirbúa okkur undir PSD2 og meðal annars þurfum við fólk í hugbúnaðardeildinni til þess að forrita og klára þá vinnu þannig að við uppfyllum þá lagalegu skyldu þegar innleiðingunni lýkur,“ segir Benedikt.  

Þegar það verður búið að opna bankann upp á gátt og öll fjártæknifyrirtækin komin í samkeppni við bankann um t.d. greiðslumiðlunaröpp og heimabankaþjónustu. Getur hann þá haldið í starfsfólk eða lendir bankinn þá í annarri krísu? 

Benedikt segir að kjarninn í þjónustunni til framtíðar verði leyfisskyld starfsemi. „Við höfum auðvitað líka brugðist við með því að fjárfesta, síðastliðin þrjú og hálft ár höfum við fjárfest fyrir tvo milljarða í fjártækni  sem er gríðarlega mikið.“ Hann segir að fram til þessa hafi þessi fjárfesting verið innanhúss og það hafi gert bankanum kleift að byggja grunn, stafræna sína bankaþjónustu. „Það gefur okkur síðan tækifæri á því að opna á samstarf við fjártæknifyrirtækin og við sjáum fyrir okkur að vera bæði í samkeppni við þau en líka í samstarfi og sjáum tækifæri í því að stofna til samstarfs einmitt í þeim tilgangi að geta boðið okkar viðskiptavinum betri þjónustu.“

Horfa til efnilegra sprota 

„Við ætlum að reyna að horfa til efnalegra sprotafyrirtækja sem eru að þróa lausnir sem er eftirspurn eftir og hafa einhvers konar tengingu við bankaþjónustu, framkvæma millifærslur, stofna til krafna inni í bankanum eða jafnvel einhvers konar lánafyrirgreiðslu sem bankar mega veita og þá er þetta samstarf einmitt kjörið milli þessara aðila því sumt af því sem fjártæknifyrirtækin eru að gera er auðvitað leyfisskyld starfsemi og það er það samstarf þar sem við getum boðið upp á. VIð getum veitt þjónustu sem er leyfisskyld og fjártæknifyrirtækin mega í einhverjum tilfellum ekki veita,“ segir Benedikt. 

Bankarnir finni sína syllu

Gunnlaugur hjá Fjártækniklasanum býst við aukinni alþjóðlegri samkeppni, múrar á milli landa verði brotnir niður í auknum mæli. Það verði erfitt að vera með alhliða bankaþjónustu á ákveðnu svæði, bankar verði ekki skilgreindir eftir svæðum, sem sænskir, norskir eða íslenskir heldur eftir tegundum þjónustu sem þeir veita, sérhæfðrar þjónustu. „Ég held að í því felist mögulega tækifæri fyrir íslenska banka, að finna einhverjar syllur, eitthvað sem þeir eru góðir í eða geta orðið góðir í, eða fundið einhvers konar samleið með íslenskri fjártækni sem sækir þá áfram almennt á fjármálamarkaðnum, sem svona hefur þá opnast á milli landa, þeir geti gert sér einhvernveginn mat úr því.“

Veita þjónustu meðan það er eftirspurn

Sér Benedikt fyrir sér frekari breytingar á starfsemi Arion banka, verður sérhæfing aukin? „Þróunin er auðvitað sú að heimsóknum í útibú er alltaf að fækka, nú þekki ég ekki hvernig tölfræðin var hjá Arion fyrir fimm árum en í dag eru fjörutíu sinnum fleiri viðskiptavinir okkar sem eiga samskipti við okkur í gegnum vefinn eða appið á hverjum degi heldur en koma í útibúin. Þetta er þróun sem mun bara halda áfram. Við verðum bara alltaf á hverjum tíma að haga okkar þjónustu eftir þörfum okkar viðskiptavina. Ef sumt af því sem bankar eru að þjónusta viðskiptavini með í dag er betur komið fyrir annars staðar þá verður það bara þróunin og þá einmitt þurfum við ekki að þjóna því hlutverki áfram en á meðan það er eftirspurn eftir okkar þjónustu munum við halda áfram að bjóða upp á hana.“

Hann nefnir dæmi, húsnæðislán, eftirspurn eftir þeim hafi minnkað hjá bönkum því lífeyrissjóðir bjóði hagstæðari kjör. „Ef við horfum fimmtán ár aftur í tímann var staðan kannski svipuð, þá var Íbúðalánasjóður og Húsnæðisstofnun þar áður að veita bestu og hagstæðustu kjörin en bankar voru þá oft að veita viðbótarlán á öðrum og þriðja veðrétti og þetta er kannski far sem við förum þá aftur í,“ segir Benedikt.  

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV