Bankarnir opnast
Bankakerfið er að breytast. Það er talað um fjártæknibyltingu og í þeirri byltingu er fyrirhuguð innleiðing á nýrri greiðsluþjónustutilskipun Evrópusambandsins á greiðslumiðlun, PSD2, stórt atriði. Talað er um að verið sé að opna bankana og það á að stuðla að því að neytendum bjóðist betri kjör en þessi þróun getur reynst bönkunum erfið. Þeir þurfa að aðlagast eða hætta á að verða undir í samkeppni. Tilskipunin felur í sér að bankarnir sitja ekki lengur einir að því að vinna með bankaupplýsingar fólks. „Þeir verða að opna á greiðslumiðlunina sína og gera hana aðgengilega í gegnum fyrirfram skílgreindan samskiptamáta sem kallast API. Þá eiga önnur fyrirtæki greiðan aðgang inn í þetta, þetta eru innviðir sem hafa kannski verið svolítið lokaðir og einungis tilheyrt bönkunum,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion. Hann segir Landsbankann þegar hafa opnað á þessa þjónustu að hluta, Arion eigi það eftir.
Tilskipunin hefur í för með sér að ýmis fjártæknifyrirtæki geta unnið með gögn bankanna og boðið sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði greiðslumiðlunarappa.
Stafræna byltingin opnaði á tengsl við hugbúnaðarfyrirtæki
Benedikt segst fyrst hafa heyrt orðið fjártækni fyrir nokkrum árum. Þegar þjónusta banka var færð yfir á stafrænt form hafi fyrirtæki sem vinna að hugbúnaðarþróun getað farið að tengjast bönkunum í auknum mæli. Upp á síðkastið hafi fjártæknifyrirtæki svo gert minni fjármálafyrirtækjum kleift að keppa í auknum mæli við hefðbundna banka. Nú er útlit fyrir að samkeppnin verði enn meiri með innleiðingu nýju tilskipunarinnar.
„Við þurfum auðvitað bara á hverjum tíma að haga okkar rekstri þannig að hann taki mið af aðstæðum og umhverfinu, ef við gerum það ekki lendum við bara í því að okkar rekstur verður veikari en annarra. Við erum að reyna að koma í veg fyrir það að verða fyrirtæki sem á endanum er með vörur sem enginn hefur áhuga á að kaupa,“ segir Benedikt.
Aðlögunarhæfni
Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, sagði í Speglinum á föstudaginn var að það væri mikil óvissa framundan hjá bönkunum. Fjártæknibyltingin geti reynst þeim erfið. „Það er eins og alltaf er þegar svona mikið tímabil breytinga kemur þá tapa þeir sem stinga höfðinu í sandinn en þeir sem reyna að taka þátt í breytingunum á uppbyggilegan hátt þeir hagnast þá frekar ef þeir geta breytt þessu í mikið tækifæri. Það er gaman að taka dæmi af því þegar bíllinn kom fyrst á markað. Þá voru ýmis fyrirtæki sem höfðu verið að framleiða hestvagna sem gátu áfram selt boddí á bílana, það voru fyrirtæki sem framleiddu dekk á hestvagna sem fóru þá að framleiða dekk á bílu og það er frægt að þeir sem framleiddu svipur, þeir urðu gjaldþrota,“ sagði Gunnlaugur.