Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa tilkynnt að þeir séu með mögulegt smit í rannsókn

28.01.2020 - 09:14
epa08150611 A traveller wears a mask in the arrival hall of the Tokyo International Airport in Tokyo, Japan, 22 January 2020. According to latest media reports, China confirmed 440 cases of Wuhan pneumonia with nine deaths. The respiratory virus was first detected in Wuhan, China, and can be passed between humans. So far it has spread to the USA, Thailand, South Korea, Japan and Taiwan.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
Milljónir Kínverja eru á faraldsfæti um þessar mundir vegna áramótanna framundan. Mynd: EPA-EFE - EPA
Spænsk yfirvöld hafa gefið merki í gegnum alþjóðlegt skráningarkerfi um að þau séu með mögulegt smit af kórónu-veirunni til rannsóknar. Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við fréttastofu. Embættinu hefur ekki borist formleg tilkynning um að þarna séu Íslendingar.

Spænskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöld að tveir Íslendingar, karl á sextugsaldri og kona á sjötugsaldri, hefðu verið lagðir inn á spítala á Torrevieja vegna gruns um að hafa smitast af kórónaveirunni. Fólkið er sagt vera í einangrun á spítalanum. 

Konan, sem búsett er tímabundið á Spáni, hafði verið á ferðalagi í Asíu og kenndi lasleika við komuna til Spánar. Hún ákvað að leita til læknis á spítala í Torroveja og bað vinafólk sitt á Spáni að aka sér á spítalann. Þegar á spítalann var komið var karlmaðurinn sem ók konuna einnig settur í einangrun þó hann kenndi sér einskis meins og ekki verið á ferðalagi í Asíu.

Óvíst er hversu lengi þau þurfa að vera í einangrun.  Fram kemur í spænskum fjölmiðlum að tekin hafi verið sýni sem hafi verið send til rannsóknar á rannsóknarstofu í Madríd og að von sé á niðurstöðum fljótlega. Komi í ljós að fólkið sé smitað af kórónaveirunni verði fylgst grannt með ættingjum þeirra næstu tvær vikur.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir í samtali við fréttastofu að spænsk yfirvöld hafi gefið merki um að þau séu með mögulegt smit til rannsóknar í gegnum alþjóðlegt skráningarkerfi. Embættinu hafi ekki borist tilkynning um að þarna séu Íslendingar. Hann segir að það sé ekkert meira sem embættið geti gert, fólkið fái fína heilbrigðisþjónustu á Spáni en þau geti alltaf haft samband við annað hvort landlæknisembættið eða utanríkisþjónustuna til að fá frekari upplýsingar. 

Kjartan segir að Spánverjar hafi verið með nokkur möguleg smit til rannsóknar en hingað til hafi ekkert staðfest tilfelli veirunnar komið upp. „Það er alls ekkert óvænt að vinsælir ferðamannastaðir séu að skoða möguleg tilfelli.“

María Mjöll Jónsdóttir hjá utanríkisráðuneytinu staðfestir í samtali við fréttastofu að borgaraþjónustunni hafi upplýsingar um að tveir Íslendingar hafi verið lagðir inn á sjúkrahús í Alicante vegna gruns um kórónuveirusmit. Smitið hafi þó ekki verið staðfest.

Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til fólks á svæðinu að kynna sér leiðbeiningar sóttvarnarlæknis og fylgja fyrirmælum stjórnvalda á Spáni um hvert skuli leita ef grunur kemur upp um smit. Þá segir María að Íslendingar í Kína geti látið borgaraþjónustuna vita um ferðir sínar með því að senda töluvpóst á [email protected].

Á vef landlæknis í gær kom fram að sóttvarnarlæknir gerði ráð fyrir að veiran myndi berast hingað til lands. Því væri mikilvægt að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest. Ákveðið var að lýsa yfir óvissustigi en það þýðir að fastmótað samráð verður viðhaft samkvæmt fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum, upplýsingamiðlun aukin og viðbragðsaðilar munu uppfæra sínar áætlanir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV