Hafa haldlagt fjórfalt meira af hörðum efnum en í fyrra

30.11.2019 - 19:15
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum hefur lagt hald á um sextíu kíló af hörðum fíkniefnum í ár sem er fjórfalt meira en í fyrra. Bregðast þarf við með aukinni toll- og löggæslu að mati lögreglufulltrúa.

Þangað til nú hafði lögreglan á Suðurnesjum, í samstarfi við tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli, aldrei lagt hald á meira af sterkum fíkniefnum en árið 2017, um 46 kíló. Í fyrra var einungis lagt hald á 15 kíló. Í ár er magnið fjórfalt meira. 

„Núna erum við að sjá algjört met. 61,3 kg nákvæmlega af hörðum fíkniefnum,“ segir Jón Halldór Sigurðsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni Suðurnesjum

Hvað skýrir þessa aukningu? „Ef ég bara vissi. Ætli eftirspurnin sé ekki svona mikil. Það sem er svona athyglisverðast í þessu er hvað það er verið að reyna að smygla miklu í einu. Það er stærsta breytingin. Við erum ekki að sjá aukningu í málafjölda.“

„Veruleg vá“ sem þarf að bregðast við

Fjöldi fíkniefnamála hjá lögreglunni á Suðurnesjum hefur haldist nokkuð svipaður. Í ár hafa 27 verið handteknir, þar af sex konur. Um 30 kíló af kókaíni hafa verið gerð upptæk á Keflavíkurflugvelli og tveir og hálfur lítri af amfetamínbasa, ýmist fluttur í ferðatöskum eða innvortis.

Á föstudaginn í síðustu viku voru tveir Hollendingar handteknir á Keflavíkurflugvelli. „Þar var rúmlega 800 grömm af kókaíni sem að annar aðilinn var með innvortis,“ segir Jón Halldór. Þeir voru á fertugs- og sextugsaldri og sitja enn í gæsluvarðhaldi. 

Jón Halldór segir augljóst að markaðurinn sé að stækka, sem komi niður á öllum stéttum samfélagsins. „Þetta er bara veruleg vá myndi ég segja. Pólitíska svarið væri að það ætti að gera einhverja heildstæða stefnumótun í þessu hvernig þjóðin ætlar að bregðast við þessum vágesti. Það þarf að bæta í löggæslu, forvarnir og tollgæslu og lengi gæti ég talið. En þetta er eitthvað sem pólitíkin verður að svara,“ segir hann.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi