Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa enn í nógu að snúast á Norðurlandi eystra

15.12.2019 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Nokkrir eru enn án rafmagns á Norðurlandi eystra. Þá eru áfram starfræktar aðgerðarstjórnir á Húsavík og á Akureyri. Þá er ein þeirra fimm fjöldahjálparstöðva sem opnaðar voru í umdæminu í fárviðrinu, enn starfrækt á Tjörnesi. Þar var boðið upp á súpu og brauð í hádeginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Þar segir að björgunarsveitir og aðrir séu enn í vinnu og sinni ýmsum verkefnum vegna óveðursins. Áfram verði unnið að því að koma ástandinu í umdæminu, sem stöðugt fari batnandi, í lag.

Nánast öll heimili á veitusvæði Rarik eru komin með rafmagn eftir langvarandi rafmagnsleysi og bilanir í kjölfar óveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku. Margir eru þó tengdir varaaflsvélum og þá gætu sumarbústaðir og heimili sem hafa verið rýmd enn verið án rafmagns.

Lögreglan birtir þá mynd af veðurathugunarmanni á Tjörnesi, en Tjörnesið sem var eitt það fyrsta sem missti rafmagn í óveðrinu.  Þær upplýsingar fengust svo hjá Rarik að því hafi verið komið aftur á um klukkan 16.30 í dag.