Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa borgað milljón fyrir ferðir í Vaðlaheiðargöng

01.01.2020 - 20:45
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Fjölskyldur í Þingeyjarsveit hafa sumar borgað um og yfir milljón fyrir ferðir í gegnum Vaðlaheiðargöng. Tæpt ár er frá því gjaldtaka í göngin hófst. Stórnotendur kalla eftir breyttri verðskrá. Ekki sé sanngjarnt að þeir sem noti göngin daglega þurfi að borga sama gjald og aðrir.

Margir íbúar Þingeyjarsveitar sækja þjónustu, vinnu eða nám til Akureyrar. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður, býr í Fnjóskadal. Hann hefur keypt um 1000 ferðir í göngin á árinu en börn hans sækja tómstundir og nám í Eyjafjörð. Þær ferðir kostuðu um sjö hundruð þúsund krónur.

Hann segist fagna göngunum og það sé sjálfsagt mál að borga í þau, gjöldin séu hins vegar alltof há, sérstaklega fyrir þá sem noti þau mikið. Hann telur ekki sanngjarnt að þeir sem noti göngin á hverjum degi þurfi að greiða sama verð og aðrir. Hann vill að tekið verði upp mánaðargjald eða að hægt verði að kaupa fleiri ferðir í einu. 

Rúnar segir eina af forsendum þess að göngin voru byggð að gera átti svæðið að einu atvinnu- og þjónustusvæði. Það gangi hins vegar ekki þegar gjaldið sé jafn hátt og raun ber vitni.

Mynd með færslu
Rúnar Ísleifsson

Ódýrasta staka ferðin kostar 700 krónur, það verð fæst með því að kaupa pakka með hundrað ferðum. Fréttastofa ræddi við nokkrar fjölskyldur í Fnjóskadal sem hafa borgað um eða yfir milljón í göngin á árinu, í þeim eru tveir til þrír sem sækja vinnu eða nám til Akureyrar. 

Myndu ekki vilja vera án ganganna

Berglind Ýr Gunnarsdóttir, nemi í hjúkrunarfræði, býr líka í Fnjóskadal. Hún stundar nám á Akureyri og hefur borgað 420 þúsund krónur fyrir ferðirnar á árinu. Þá eru ekki meðtaldar ferðir sem maðurinn hennar fer vegna vinnu sem séu jafnvel enn fleiri en hennar. Hún segir nágranna sína hafa svipaða sögu að segja; „Þetta er þvílík samgöngubót og við myndum ekki vilja vera án þess þegar við erum búin að prufa þetta en ég held það séu allir á því sama að það væri gott að geta fengið aðeins betri kjör“.

Mynd með færslu
Berglind Ýr Gunnarsdóttir

Mánaðargjald í skoðun

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir í skoðun að koma til móts við þá sem noti göngin daglega; „Við höfum verið að skoða svona fyrirmynd sem er í Færeyjum sem er mánaðargjald. Þá er fast gjald á bíl og hægt að keyra eins mikið og þeir vilja þannig því meira sem þeir keyra því ódýrara. Það er í skoðun og líklega verður tekin ákvörðun um það á næstu mánuðum“.