Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa aldrei lent í öðru eins óveðri

13.01.2020 - 13:59
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sandra McGannon og Brendon Collin voru meðal þeirra 180 sem vörðu nóttinni í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í nótt. Þau eru frá Boston og hafa aldrei lent í öðru eins hvassviðri.

Þau komu til landsins í gær og voru föst á flugvellinum í 13 klukkutíma og voru svo flutt í fjöldahjálparstöðina. Collin kveðst ekki hafa sofið í tvo sólarhringja en McGannon náði aðeins að sofna í nótt. 

„Við höfum ekki upplifað svona veður áður og vorum hissa þegar við komum. Við vorum búin undir að það væri kalt og snjór og svoleiðis en við bjuggumst ekki við svona miklum vindi,“ sagði McGannon í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur, fréttamann um hádegisbil í dag þegar þau voru á leið í rútu sem flutti þau frá fjöldahjálparstöðinni. 

Collin kveðst hafa lent í ýmsum veðrum í störfum sínum við landhelgisgæslu en aldrei í neinu í líkingu við veðrið á Keflavíkurflugvelli og í Reykjanesbæ í gær. 

Yfir 600 manns komu í fjöldahjálparstöðina í gærkvöld og á bilinu 120 til 150 gistu þar á beddum í nótt. Þó er talið að í heildina hafi um 180 ferðalangar verið í íþróttahúsinu í nótt. Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna Rauða krossins, segir að nóttin hafi gengið vel fyrir sig. „Þetta hefur verið ótrúlega mikið umfangs, fleiri hundruð manns búin að rúlla hérna í gegnum neyðarhjálparstöðina í nótt og í dag og eru að yfirgefa hana og fólk er öllu jöfnu yfirvegað og rólegt þótt það sé orðið þreytt og það vonast svo sannarlega til að komast héðan í burtu í dag, þeir sem eiga flug,“ segir Aðalheiður. 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins flutti ýmsan varning til Suðurnesja eftir að ákveðið var að opna fjöldahjálparstöðina. „Það gekk svolítið brösuglega, Reykjanesbrautin var lokuð og ófær í gærkvöld þegar beiðnin kom þannig að það tók tíma. Við þurftum að bíða þangað til hún var opnuð en það tókst fyrir rest og gekk allt vel. Þegar við vorum komin yfir Reykjanesbrautina þá var þetta komið.“

Aðalheiður kveðst ekki hafa orðið vör við það að fólk væri skelkað. Veðrið hafi þó vissulega verið vont og flestir óvanir slíku óveðri en samt hafi fólk haldið ró sinni. Veðurspáin er slæm fram á miðvikudag og Aðalheiður kveðst vona að ekki þurfi að opna fjöldahjálparstöð aftur í kvöld en gerist þess þörf verði það að sjálfsögðu gert.