Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hættustig á Flateyri og Patreksfirði vegna snjóflóða

16.03.2020 - 16:53
Flateyri í Önundarfirði janúar 2020
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Hættustig er á Flateyri og Patreksfirði vegna snjóflóða og óvissustig vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum öllum. Ákveðið hefur verið að rýma tíu íbúðarhús efst á Flateyri og nokkur önnur hús ofarlega í bænum. Tvö hús hafa verið rýmd á Patreksfirði.

Tvö flóð féllu fyrir ofan Patreksfjörð í morgun, það seinna um hálf ellefu fyrir hádegi. Óliver Hilmarsson, snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að það hafi ekki ógnað byggð.

„Við höfum oft fengið flóð af þessari stærðargráðu þarna, það ógnaði ekkert byggð. Það var í raun mjög gott að fá þetta flóð því þá byggist minna upp fyrir vikið,“ segir hann.

Ætti að vera aflokið á miðvikudag

Óliver segir að það sé búið að draga úr veðri á sunnanverðum Vestfjörðum, en fylgst verður náið með stöðu mála næsta sólarhringinn. Það á við bæði þar og á norðanverðum Vestfjörðum. Ekki er víst hvenær er hægt að aflétta óvissustigi. Hann segir að aðstæður gætu versnað á morgun en dragi úr seint annað kvöld og ætti að vera aflokið á miðvikudag.

Slæmt skyggni á Flateyri

Flóð féll úr Ytra-Bæjargili fyrir ofan Flateyri 12. mars, en ekki er vitað til þess að flóð hafi fallið þar síðan þá. Hins vegar segir Óliver skyggni svo slæmt að ekki sæist ef eitthvað hefði fallið. Þar er búið að rýma tíu íbúðarhús og eins bensínstöðina Bakkabúð og þrjá veiðikofa við smábátahöfnina.

Flateyrarvegur og Súðavíkurhlíð eru lokuð vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð hafa þar fallið á báðum stöðum, samkvæmt Vegagerðinni.