Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hættulegt veður og fólki ráðlagt að vera heima

13.02.2020 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Þessi rauði litur er bara til að leggja áherslu á að þetta veður er mjög hættulegt,“ sagði Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur í síðdegisfréttum Útvarps. 

Elín segir að þeir sem mögulega geti, eigi að vera heima hjá sér á morgun. En þeir sem vinni þannig vinnu að þeir verði hreinlega að mæta eigi að gera ráðstafanir í samráði við yfirmenn sína og í takt við viðbragðsáætlanir. 

Elín segir að það verði bálhvasst á Suðurlandi. „Þar er jafnaðarvindur víða að fara yfir 32 metra á sekúndu og jafnvel upp í 35. Þetta eru meira en tólf gömul vindstig. Á Suðausturlandi er vindhraðinn líka gríðarlegur og þar fylgir stórhíð sem er óvenjulegt fyrir Suðausturland. Þessu fylgja mikil samfélagsleg áhrif. Það er föstudagsmorgunn og margir ætla að vera á ferðinni,“ segir Elín. 

Elín segir að það gæti orðið talsverð hríð með veðrinu á höfuðborgarsvæðinu og spar gera ráð fyrir vindhraða upp á allt að 32 metra á sekúndu. Það gæti orðið hrikaleg töf og slæmar afleiðingar ef allir ætluðu sér að fara í vinnu milli klukkan átta og tíu í fyrramálið.