Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hættir ekki með kærustunni þótt karakterinn geri það

Mynd: Jón Þorgeir Kristjánsson / RÚV

Hættir ekki með kærustunni þótt karakterinn geri það

06.01.2020 - 13:45

Höfundar

Leikhópurinn Kriðpleir hefur nú flutt tvö frumsamin útvarpsleikrit sem byggð eru á þeim sjálfum og lífi þeirra. Þó að margt sé staðfært og ýkt þá er flest í fari persónanna byggt á þeim sjálfum enda er Ragnar Ísleifur Bragason í alvöru stjórnsamur og Árni Vilhjálmsson viðurkennir að vera á kafi í sjálfshjálparbókum rétt eins og nafni hans í leikritunum.

Leikhópurinn Kriðpleir samanstendur af þeim Árna Vilhjálmssyni, Ragnari Ísleifi Bragasyni, Bjarna Jónssyni og Friðgeiri Einarssyni og er nafnið á hópnum afbökun á nafni Friðgeirs. Nafnið Kriðpleir datt honum í hug á skrifstofu Hagstofunnar þegar hann mætti með öll gögn til að stofna fyrirtæki en var óviðbúinn þegar hann var spurður hvað það héti. Hann sagði síðar félögum sínum í leikhópnum að nafnið hefði upphaflega komið til hans þegar hann var að pissa einn daginn og fannst pissið hljóma eins og Kriðpleir eða: „Krð plr, krð plr...“

Félagarnir í Kriðplei sömdu og fluttu tvö útvarpsleikrit á liðnu ári, Bónusferðina og Litlu jólin sem var jólaleikrit Ríkisútvarpsins. Tveir liðsmenn Kriðpleis þeir Árni og Ragnar voru gestir Bjargar Magnúsdóttur og Gísla Marteins Baldurssonar í Morgunkaffinu á Rás 2 og sögðu frá leikhópnum, sköpunarferlinu og hvað nýja árið ber í skauti sér. 

Saga Garðars leikur bestu vinkonu sína

Leikhópurinn hefur áður sett upp verk á sviði en heillast mjög af útvarpsleikhúsforminu þó það hafi verið þeim svolítið framandi til að byrja með. Þeir ákváðu að leika sjálfa sig og nöfnum er ekki breytt en persónurnar eru ýktar og aðstæður einnig. Vinátta þeirra byggist þó á tengslum þeirra í raunheimum og skilar sér skemmtilega í leiknum enda eru samskiptin í verkunum að miklu leyti raunsönn og þannig vilja þeir að þau hljómi. „Við héldum að dýnamíkin okkar á milli, sem við vinnum með á sviðinu, myndi ekki skila sér í útvarpi því fólk sér okkur ekki en svo er hægt að vinna með ýmislegt í eftirvinnslunni,“ segir Ragnar. Senurnar skrifar þeir hver í sínu lagi en leggja mikið upp úr því að samtölin séu sem eðlilegust og spinna mikið á staðnum og skemmta sér þegar þeir eru komnir í hljóðver. Sem fyrr segir léku þeir sjálfa sig og kærustur þeirra léku sjálfar sig nema með einni undantekningu. Sigrún kærasta Friðgeirs er nefnilega búsett í Bergen í Noregi svo besta vinkona hennar, Saga Garðarsdóttir leikkona, hljóp í skarðið fyrir hana og kallaði sig Sigrúnu í verkinu.

„Karakterarnir eru áhugaverðari en við“

Félagarnir magna upp eiginleika í sjálfum sér og segja að það sé margt rétt sem fram kemur í leikritunum. Árni les  til dæmis mikið og pælir í sjálfshjálparbókum og Ragnar er frekar stjórnsamur og viðurkennir það. „Við vorum einu sinni að æfa sýningu, mig minnir að það hafi verið Ævisaga Einhvers og Ragnar kemur inn á svið og ég segi við hann: Ragnar, verkjar þig í stjórnsemina?“ rifjar Árni upp og báðir hlæja.

Hann áréttar þó að ekki sé allt satt sem kemur fram í leikritinu. Til dæmis er allt í lukkunnar velstandi hjá honum og Snjólaugu kærustu hans þó þau hætti saman í leikritinu en margir hafa komið að máli við Árna síðan leikritið var frumflutt og spurt hvort rétt sé að hann sé á slæmum stað í raun og sambandið í molum. „Ég er ekki hættur með kærustunni þó karakterinn í leikritinu sé það, ég var að máta mig við martröðina sem felst í að vera með nýtt barn og að skilja,“ segir Árni sposkur en hann og kærastan eiga saman nokkurra mánaða gamlan son. „Ef leikritið fjallaði um að við Snjólaug værum saman og allt gengi rosalega vel hjá okkur þá myndi enginn nenna að hlusta á það.“ Ragnar tekur undir. „Við viljum hafa þetta áhugavert og þess vegna eru karakterarnir áhugaverðari en við.“ 

Listamenn þurfa ítrekað að sækja um vinnuna aftur

Nýja árið er að mörgu leyti órætt hjá leikhópnum þó ljóst sé að þeir taki upp á einhverju sniðugu saman. Þeir eru að bíða eftir svari frá ýmsum sjóðum sem þeir hafa sótt um styrki í og þegar svörin verða ljós sjái þeir betur fyrir sér framhaldið. „Listamenn þurfa ítrekað að sækja um vinnuna sína aftur og við höfum sótt um styrk en það kemur í ljós síðar í mánuðinum hvort við fáum hann,“ segir Ragnar. 

„Maður getur ekki alltaf verið að laga sig“

Á nýju ári keppast margir landsmenn við að gefa sjálfum sér loforð um að bæta sig og betra með breyttu mataræði, aukinni hreyfingu og nýjum og jákvæðari hugsunarhætti Árni og Ragnar segjast sjálfir ekki gera það. „Ég held að það sé hægt að ganga of langt í að vera alltaf að bæta sig en maður þarf líka á einhverjum tímapunkti að finnast maður, eins og Alda Karen segir, vera nóg. Maður getur ekki alltaf verið að laga sig,“ segir Árni kíminn og bætir því við að það sé þó aldrei að vita nema hann gefi sjálfur út sjálfshjálparbók á árinu.

Rætt var við Árna Vilhjálmsson og Ragnar Ísleif Bragason í Morgunkaffinu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Útvarpsleikhúsið: Litlu jólin

Leiklist

Útvarpsleikritið SOL tilnefnt til verðlauna