Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hætta innheimtu í Hvalfjarðargöngum á morgun

27.09.2018 - 12:20
Veggjaldshliðið við Hvalfjarðargöngin.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Um hádegi á morgun verður hætt að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngum. Spölur hefur náð samkomulegi við ríkið um endanlegt uppgjör um afhendingu ganganna. Þau verða afhent Vegagerðinni til eignar og reksturs á sunnudag. 

Til að Spölur gæti hætt innheimtu veggjalda í Hvalfjarðargöngum þurfti félagið að ná samkomulagi við ríkið um tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna.

Afskriftir komi inn í reikning Spalar á þessu ári

Þetta samkomulag er nú í höfn, að sögn Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar. „Það snýst nú fyrst og fremst um staðfestingu á því að 35. grein tekjuskattslaga gildi um verkefnið, þannig að reikningslegar afskriftir komi inn í reikning Spalar á þessu ári. Sem þýðir að það verða engar skuldbindingar á næsta ári sem þarf að afla fjár fyrir. Það skiptir býsna miklu máli.“

Hægt að aka frítt í gegn um hádegisbil á morgun

„Þannig að þið munið hætta innheimtu á morgun?“ „Við hættum innhemtu á morgun og afhendum göngin ríkinu á sunnudag,“ segir Gísli. Um hádegisbil á morgun verði allt frágengið og þá geti allir keyrt frítt í gegnum Hvalfjarðargöng.

Um tvo mánuði taki að gera upp við áskrifendur

Þó að innheimtu verði hætt er talsverð vinna eftir hjá Speli að ljúka viðskiptum við áskrifendur og þá sem eiga inneignir hjá félaginu. Gísli segir að á heimasíðu Spalar séu leiðbeiningar fyrir vegfarendur um hvernig þeir eigi að fá endurgreitt. „Það eru um 50 þúsund lyklar í gangi og 20 þúsund áskriftasamningar. Þannig að það er handavinna í framhaldi. En hún er nú þegar hafin og ég á von á því að það muni ganga greiðlega á næstu tveimur mánuðum.“