Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hætta á uppsögnum sé skólameistari endurráðinn

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Formaður kennarafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi segir hættu á uppsögnum verði Ágústa Elín Ingþórsdóttir endurráðin sem skólameistari.

Í vantraustsyfirlýsingu sem skilað var í fyrradag beina kennarar FVA þeim tilmælum til ráðherra að Ágústa verði ekki endurráðin. Undir hana skrifa 38 af 46 kennurum við skólann. Garðar Norðdahl, formaður kennarafélagsins, segir stjórnunarhætti Ágústu og laun kennara helstu ástæður yfirlýsingarinnar.

„Þyngsta ástæðan er náttúrulega bara launamál. Við erum búin að standa í stað með dagvinnulaun núna frá 2015, þau hafa ekkert hækkað. Á meðan grunnlaun hjá öðrum skólum hafa hækkað í kringum tíu prósent. Heildarlaun hafa hreinlega lækkað frá því hún tók við, í krónutölu,“ segir Garðar.

Garðar segist þá gera ráð fyrir uppsögnum verði Ágústa endurráðin. „Menn hafa verið svona að impra á því, en eru náttúrulega ekkert hrifnir af því að hætta á vinnustaðnum.“

Skipun skólameistara liggur nú fyrir hjá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Lilja Dögg Alfreðsdóttir vék sæti við skipun eftir að Ágústa stefndi ríkinu þar sem hún telur ranglega hafa verið staðið að auglýsingu stöðunnar.

Ekki náðist í Ágústu við gerð fréttarinnar.