Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hætt við vegtolla við höfuðborgarsvæðið

05.12.2017 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir engar áætlanir uppi um veggjöld á helstu leiðum til og frá Reykjavík. Ríkisstjórnin fundaði í morgun um fjárlagafrumvarpið og áherslur einstakra ráðherra.

Stefnt er að því að Alþingi komi saman í næstu viku. Fyrsta mál þingsins er venju samkvæmt fjárlagafrumvarpið, en óvenju skammur tími er til að ganga frá því. Ráðherrar lögðu fram áherslur sínar fyrir frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra minnir á helstu áherslur ríkisstjórnarinnar sem eru á uppbyggingu innviða; heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Áherslur hans  inn í fjárlagafrumvarpið í samgöngumálum lúta að öryggisþáttum, einbreiðum brúm og fleiru. Hann segir að rætt hafi verið um aukið fjármagn til samgöngumála. Forveri hans í starfi var með áætlanir um að leggja á veggjöld á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina, en Sigurður Ingi segir að það sé ekki inni í myndinni lengur.

„Nei, það er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum,“ segir Sigurður Ingi.
Þannig að það eru engar áætlanir um slíkar aðgerðir?
„Nei, þær voru lagðar til hliðar sem og ýmsar aðrar álögur sem stóð til að leggja á bíla, þó svo við séum að taka upp græna skatta eins og kolefnisskatta.“

Sigurður Ingi segir að horfa þurfi til lengri tíma hvernig viðhald verði fjármagnað sem og nýframkvæmdir. Tekið verði á því í næstu ríkisfjármálaáætlun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var með sínar áherslur skýrar.

„Eins og ég hef áður sagt þá er það fyrst og fremst á sjúkrahúsþjónustuna og heilsugæsluna, það er þar sem þörfin er mest.“
Landspítalinn þar fremstur í flokki, eða hvað?
„Já að sjálfsögðu.“
Gerir þú þér vonir um að fá verulega viðbóta þar?
„Ég bara vona það besta, ég geri eins og ég get,“ segir heilbrigðisráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að bæta eigi í menntamálin.

„Við erum að auka fjárveitingar til háskóla- og framhaldsskólastigsins og við erum að ganga frá því endanlega þannig að ég er búinn að vera með mjög skýr áhersluatriði og þið sjáið að stjórnarsáttmálinn ber þess augljóslega merki.“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir ákveðnar breytingar frá fjárlagafrumvarpinu sem lá fyrir.

„Breytingin frá frumvarpinu sem var lagt fram í haust er kannski helst sú hvað dómsmálaráðuneytið varðar er að það kemur aukið fé til þess að mæta verkefnum sem koma fram í aðgerðaáætlun um kynferðisbrot í réttarvörslukerfinu, aðgerðaáætlun sem ég lagði fram í haust og menn eru sammála um að hrinda í framkvæmd á næstu misserum. Sumt af því er einskiptiskostnaður, annað er varanlegur kostnaður er varðar til dæmis fjölgun hjá saksóknurum og lögreglunn og varðar þennan málaflokk.“ 

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir sína stefnu klára.

„Það verður bara að halda sama kúrs og stjórnarsáttmálinn gefur til kynna og svo sjáum við hvernig því reiðir af.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra vildi bíða með yfirlýsingar fram yfir ríkisstjórnarfund.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta fyrr en við erum bara búin á fundinum.“
En þú kemur með hugmyndir?
„Já, já ég er með hugmyndir,“ segir umhverfisráðherra.

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV