Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hætt við að trúarbrögðin verði gerð glæpsamleg

18.02.2018 - 10:39
Mynd með færslu
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Mynd: RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Þjóðkirkjunnar, segir að tvö ólík mannréttindasjónarmið takist á í frumvarpi um að umskurður drengja verði bannaður með lögum. Hún segir að það sé annars vegar óafturkræft inngrip í líkama drengja og hins vegar réttur barna til að alast upp við trúarlegar og menningarlegar grundvallarhefðir foreldra sinna og alls síns fólks sem geti mótað sjálfsmynd þeirra.

Þetta segir biskup í umsögn um frumvarpið. Agnes segir að hættan sem blasir við, ef frumvarpið verður að lögum, sé sú „að gyðingdómur og Islam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir“. Hún segir að allar slíkar öfgar eigi að forðast. 

Agnes segir að ræða mætti bann við umskurn án öruggra aðstæðna og hvort hægt væri að tryggja þá heilbrigðisþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi sem mæti þörfum ólíkra trúar- og menningarheima.

Réttindi barns eða trúfrelsi

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, og fleiri þingmanna um bann við umskurði drengja hefur vakið mikla athygli, hérlendis sem erlendis. Silja Dögg hefur sjálf sagt að þetta snúist ekki um trúfrelsi heldur mannréttindin barna. Í greinargerð með frumvarpinu segir að síðustu ár hafi sú skoðun rutt sér til rúms að umskurður í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum tilgangi sé brot á mannréttindum drengja. Það sé vegna þess að hann sé óafturkræft inngrip í líkama þeirra sem barnungir drengirnir hafi sjálfir ekkert um að segja. Að auki séu þeir settir í mikla hættu, meðal annars á sýkingu, og látnir þola mikinn sársauka.