Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hætt við að rannsóknin skyggi á allt annað

10.10.2019 - 14:11
Mynd: RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds / RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds
Hætt er við að rannsókn á embættisverkum Donalds Trump skyggi á alla umræðu í bandarískum stjórnmálum næstu misserin, og þá á kostnað annarra málefna í aðdraganda forsetakosninga á næsta ári. Þetta segir sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum.

Um fátt er annað talað í Washingon, og reyndar víðar, en yfirstandandi rannsókn á embættisverkum Donalds Trump. Enda hefur stuðningur við viðlíka rannsókn á sitjandi forseta Bandríkjanna sjaldan verið meiri meðal almennings. 

„Nýleg könnun Washington Post sýnir að meirihluti er fyrir því að rannsóknin fari fram, meðal bandarísku þjóðarinnar,“ segir David Livingston. 

Livingston starfar hjá hugveitunni Atlantic Council, er búsettur í Washington og hefur tekið þátt í kosningastarfi þar vestra. Hann segir ljóst að rannsóknin eigi eftir að hafa mikil áhrif á pólitíkina í Washington. Hann hélt fyrirlestur á vegum Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins

„Eftir því sem þetta vindur upp á sig og verður meira að umfangi þá verður erfiðara að semja og samþykkja lög um tiltekin efi. Það verður erfiðara að fjalla efnislega um mál í fulltrúadeildinni og jafnvel öldungadeildinni, en þar verður fylgst með framvindu rannsóknarinnar af mikilli athygli. Svo það verður athyglisvert að sjá hvort Bandaríkjaþing ráði við að sinna tvennu í einu,“ segir Livingston. 

Já það er nefnilega möguleiki að rannsóknin og skoðanir andstæðra fylkinga skyggi á allt annað í aðdraganda forsetakosninga þar í land á næsta ári. Þá verði ýmis málefni útunda, til að mynda umhverfismálin. 

„Umhverfismálin eru mjög athyglisverð, því að mörgu leyti eru þau ofarlegar á baugi í stjórnmálum nú en nokkru sinni. Aðgerðir unga fólksins í loftslagsmálum, eins og Gretu Thunberg, sem og áframhaldandi starf baráttuhópa fyrir loftslaginu hefur dregið rækilega fram pólitískt mikilvægi þessara mála,“ segir Livingston. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV