Nýr hringvegur á að liggja rétt norðaustan við Selfoss. Brúin yfir Ölfusá fer yfir hólma í ánni og þar verður mastur sem brúin hangir. Það verður 60-70 metra hátt eða næstum því jafnhátt og Hallgrímskirkjuturn.
Inni á Selfossi fer lítið fyrir rónni og kyrrðinni sem er við tilvonandi brúarstæði. Um miðjan dag er bíll við bíl á Austurvegi.
„Við vonumst til að ný brú sem er fullhönnuð að hafist verði handa við hana innan fjögurra ára. En til þess þarf auðvitað að finnast eitthvað út úr fjármögnun allra þessara samgönguframkvæmda sem þörf er á á Íslandi. Samkvæmt samgönguáætlun þá yrði ekki hafist handa fyrr en eftir sex ár. Miðað við þá gríðarlegu umferð sem hér er, 20.000 til 30.000 bílar á dag um brúna gömlu, þá er það bara eiginlega of seint,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.