Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hæstiréttur hafnar beiðni Nöru Walker

05.02.2019 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Nöru Walker, ástralskar konu sem var sakfelld fyrir að bíta í sundur tungu eiginmanns síns í nóvember fyrir tveimur árum. Walker hlaut tólf mánaða dóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna, í héraði en Landsréttur þyngdi refsinguna í 18 mánuði, þar af voru fimmtán mánuðir skilorðsbundnir. Walker hefur sagt sögu sína í áströlskum fjölmiðlum og gagnrýnt framgöngu íslensku lögreglunnar.

Nara Walker hefur haldið því fram að árás hennar hafi verið í sjálfsvörn. Í viðtali við Fréttablaðið í byrjun árs sagðist hún telja mál sitt fordæmisgefandi hvað varðar nauðvörn kvenna sem verða fyrir grófu ofbeldi eða sæta heimilisofbeldi. 

Í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar vísar hún til þess að í dómi Landsréttar hafi verið lagt til grundvallar að hún hafi bitið tunguna af eiginmanni sínum í átökum við hann. Dómurinn hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi hennar geti ekki hafa helgast af neyðarvörn án frekari rökstuðnings. 

Hæstiréttur segir í niðurstöðu sinni að sakfelling Landsréttar í málinu byggist fyrst og fremst á mati sönnunargildis munnlegs framburðar Nöru Walker, fyrrverandi eiginmanns hennar og annars vitnis. Það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.   

Walker hefur sagt sögu sína í áströlskum fjölmiðlum. Í viðtali við 9 News gagnrýnir hún lögregluna á Íslandi og segir að í stað þess að fá læknisaðstoð kvöldið örlagaríka hafi hún verið sett í handjárn og færð í fangaklefa. „Þeir dæmdu mig seka um leið og þeir gengu inn í íbúðina,“ hefur miðillinn eftir Nöru Walker.