Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hænuskref í rétta átt, segir formaður ÖBÍ

Mynd með færslu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands Mynd: RÚV
Ný lagabreyting dregur úr skerðingu bóta þeirra öryrkja sem hafa aðrar tekjur. Breytingin er afturvirk og þeir sem eiga rétt á hækkun greiðslna fá greidda fyrstu átta mánuði ársins í lok ágúst. „Hænuskref í rétta átt,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Þuríður segir að nú fái þessi hópur 35 aura afslátt af krónu á móti krónu skerðingunni. Skerðingin nemi því nú 65 prósentum í stað hundrað líkt og var fyrir lagabreytinguna. Það þýði að fatlað fólk og öryrkjar borgi í dag aðeins minna inn á markaðinn.

„Þetta er náttúrulega bara hænuskref í rétta átt. Við auðvitað fögnum öllum skrefum sem ríkið tekur í rétta átt að því að lagfæra kjör öryrkja og fatlaðs fólks,“ segir hún. Hún vonar þó að ríkisstjórnin flýti sér að afnema skerðinguna að fullu. 

Í tilkynningu á vef Örorkubandalagsins segir að aðeins þegar skerðingin verði að fullu afnumin verði fötluðu fólki opnuð leið inn á vinnumarkaðinn án þess að þurfa að kaupa sig inn á hann. 

Hér má sjá tilkynningu Tryggingastofnunar