Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hækkun á gjaldskrá Sorpu bs. til skoðunar

Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Sveitarfélögin sem eiga Sorpu bs. þurfa að ábyrgjast sex hundruð milljóna króna lán til að rétta af rekstur byggðasamlagsins. Stjórnarformaður Sorpu og nýráðinn framkvæmdastjóri segir að skoðað verði hvort hækka þurfi gjaldskrár til að mæta þessu. Svipuðum aðferðum verður beitt til að rétta af rekstur Sorpu bs. og gert var hjá Orkuveitunni eftir bankahrunið. Nýr framkvæmdastjóri Sorpu segir að aðgerðaáætlunin verði þó ekki nefnd Stóra planið eins og hjá Orkuveitunni.

Fjárhagsleg staða og framtíð Sorpu bs. var til umræðu á fundi í morgun með borgar- og bæjarfulltrúum sveitarfélaganna sem eiga Sorpu. Sex sveitarfélög eiga Sorpu: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Fundurinn stór yfir í rúman klukkutíma. Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu, segir að nú sé unnið að aðgerðaáætlun. 

Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV

„Við þurfum að fjármagna félagið út árið og þess vegna munum við leggja fram ósk í borgar- og bæjarráðum um 600 milljóna króna lánalínu til þess m.a. að klára þessi fjárfestingaáform en líka til þess að mæta lækkandi tekjum,“ segir Birkir Jón.

Þýðir þetta að eigendurnir, sveitarfélögin, þurfa að leggja til einhverja fjármuni?

„Nei, þeir munu ábyrgjast þetta lán félagsins. En hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að leggja fram tillögur fyrir lok maí sem mæta þessum þörfum og við þurfum að gera félagið sjálfbært og að því erum við að vinna þessa dagana,“ segir Birkir Jón.

Þýðir þetta hækkun á gjaldskrám?

„Það getur mögulega gert það,“ segir Birkir Jón.

Helgi Þór Ingason, nýráðinn framkvæmdastjóri Sorpu, hefur verið um viku í starfi. Telur hann að mikið þurfi að laga til í rekstrinum?

„Ég held að það séu mörg sóknarfæri að gera betur. Það er eiginlega alltaf hægt að gera betur,“ segir Helgi

Verður þetta eitthvað svipað og gert var hjá Orkuveitunni, Stóra planið?

„Sumpart er þetta dálítið svipað. Það er ekki ósvipaður grunnvandi. Þetta eru auðvitað ólík fyrirtæki. Sorpa er töluvert minna fyrirtæki en Orkuveitan. Ég er satt að segja að beita svipuðum aðferðum og voru notaðar þá. Þetta er að búa til vinnuhópa, fylgja vinnu þeirra eftir, hafa skýr markmið og svo kemur út úr þessu samræmdur pakki af einhverjum aðgerðum. Við munum örugglega finna annað nafn en Planið en það verður dálítið svipuð nálgun á þetta eins og var í Orkuveitunni,“ segir Helgi.

Það þýðir þá væntanlega gjaldskrárhækkanir?

„Ég get ekki útilokað það. Mér finnst líklegt að það verði hluti af því sem verður skoðað. En það er dálítið viðkvæmt því umfram allt viljum við ekki hafa neikvæð áhrif á hegðun fólks. Markmiðið er að ná vel utan um sorphirðu og hafa mótandi, jákvæð áhrif á hegðun fólks hvað það snertir. Þannig að það er dálítið viðkvæmt sambandi kannski milli gjaldskrárhækkana og þess hvernig fólk hegðar sér. Þannig að við þurfum að fara varlega í þessu öllu saman,“ segir Helgi.