Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hækka þjónustugjöld vegna lækkunar stýrivaxta

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Fyrirtækið Valitor hefur hækkað þóknun vegna færsluhirðingar hjá tilteknum viðskiptavinum sínum. Ástæðan er mikil lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans að undanförnu. Valitor ávaxtar fé frá kaupmönnum frá þeim tíma sem greiðsla frá korthafa berst, og þangað til gert er upp við kaupmenn. Með lækkun stýrivaxta að undanförnu hefur þessi ávöxtun lækkað jafnt og þétt. Hvorki KORTA né Borgun hyggjast hækka gjöld vegna þessa.

Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir niður í 1,75 prósent í síðustu viku og hafa aldrei verið lægri. Þetta þýðir að vextir á bæði inn- og útlánum lækka.

Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Valitor á Íslandi, segir að mikil lækkun stýrivaxta að undanförnu hafi orðið til þess að fyrirtækið hafi ákveðið að hækka tiltekin gjöld.

„Valitor hækkaði þóknun vegna færsluhirðingar einungis á þeim viðskiptavinum sem fá uppgert mánaðarlega og í íslenskum krónum. Þessi breyting á sér langan aðdraganda en kornið sem fyllti mælinn er skarpar stýrivaxtabreytingar Seðlabankans á skömmum tíma sem Valitor treystir sér ekki til að taka alfarið á sig,“ segir Pétur.

„Í þeim tilvikum sem kaupmenn fá uppgert mánaðarlega, hefur Valitor notið ávöxtunar af veltu þeirra kaupmanna frá þeim tíma sem greiðsla er móttekin frá korthafa og þar til að hún er gerð upp við viðkomandi kaupmann. Kaupmenn hafa notið þessarar tilhögunar í formi hagstæðari þjónustugjalda. Sú forsendubreyting hefur hins vegar orðið að stýrivextir hafa lækkað ört á síðustu vikum og misserum með tilheyrandi tekjutapi fyrir Valitor.“

Pétur nefnir sem dæmi að á innan við einu ári hafi stýrivextir lækkað úr 4,5% í 1,75%. Lækkunin sé mun meiri þegar horft sé til lengra tímabils. 

„Áhrif af stýrivaxtalækkunum Seðlabanka síðasta árs eru mun meiri en sú hækkun sem Valitor tilkynnir núna. Því er Valitor að taka á sig hluta þessarar lækkunnar og kaupmenn hluta,“ segir Pétur.

Þá segir Pétur að hækkunin nái aðeins til þeirra kaupmanna sem séu með samninga um mánaðarleg uppgjör, sem sé mikill minnihluti kaupmanna.  

Erfitt ástand

Önnur fyrirtæki á sama markaði hafa ekki í hyggju að hækka gjöld.

„Borgun hefur ekki hækkað þjónustugjöld vegna lækkunar stýrivaxta. Við tökum mið af því erfiða ástandi sem nú ríkir og teljum að svo stöddu ekki ástæðu til að hækka. Við viljum fyrst og fremst einbeita okkur að því að aðstoða okkar viðskiptavini eins og kostur er,“ segir Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar.

Í sama streng tekur Jakob Ásmundsson, forstjóri KORTA.

„KORTA hefur ekki verið að hækka gjaldskrár undanfarið og hefur ekki í hyggju að velta stýrivaxtalækkunum yfir á sína viðskiptavini,“ segir Jakob.