Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hægvarp á hraðri uppleið

Mynd: Jenni Douglas / Flickr.com

Hægvarp á hraðri uppleið

10.02.2017 - 14:56

Höfundar

Hraði nútímasamfélags virðist vaxa í veldisvísi. Þessvegna er kannski eðlileg þróun að fólk sæki í einhverskonar frí frá þessu öllu, tilbreytingarlaus rólegheit. Þannig hefur myndast jarðvegur fyrir hægvarp, eða „Slow-TV“. Nú er hægt að nálgast 11 norskar hægvarpsútsendingar á Netflix.

Hæg þróun

Hægvarp er heiti yfir þá tegund sjónvarpsefnis þar sem hlutum eins og framvindu og hnitmiðaðri atburðarás er sleppt, en miðar þá frekar að því að gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir einhverjum stað á rauntíma. Langar kvikmyndaðar útsendingar í samgöngutækjum á borð við lestar, báta og bíla eru dæmi um þetta. Eins er útsending fréttavefsins Nútímans frá lífi kettlinga dæmi um hægvarp.

Fyrstu skref hægvarpsins hafa stundum verið eignuð listamanninum Andy Warhol sem bjó til vídjóverk árið 1963 sem bar yfirskriftina Sleep. Verkið sýndi skáldið John Giorno sofa í sex klukkustundir og tuttugu mínútur.  Þróun hægvarpsins hefur verið, líkt og hægvarpið sjálft, hæg en nokkuð stöðug. Á allra síðustu árum hefur formið síðan tekið eiginlegan kipp, og eru það Norðmenn sem hafa á síðustu árum orðið leiðandi í hægvarpsmálum.

Noregur tekur forystuna

Árið 2009 voru starfsmenn norska ríkissjónvarpsins NRK, á fundi þar sem skyldi ákveða með hvaða hætti ætti að fagna aldarafmæli lestarleiðarinnar eða línunnar milli Oslóar og Bergen. Thomas Hellum, framleiðandi og frumkvöðull norsku hægvarpsbyltingarinnar, stakk upp á því að ferðin frá Bergen til Osló yrði kvikmynduð í heild sinni, í sjö klukkustunda útsendingu. Stjórnendum norska ríkissjónvarpsins fannst að eigin sögn hugmyndin „of klikkuð til að hafna henni“.

Hreindýr í beinni

Sjö klukkustunda útsending NRK vatt upp á sig og þegar yfir lauk hafði hún sankað að sér 1.2 milljónum áhorfa. Þetta varð upphafið af fleiri slíkum framleiðslum hjá stöðinni, en nú á vordögum er væntanleg þriggja sólarhringa útsending frá flutningi hreindýra milli beitilenda. Er fyrirhugað að festa Go-Pro vél á hreindýrstarf og fylgjast þannig með dýrunum í sínu náttúrulega umhverfi.

Kettir í hægvarpi

Hægvarpið hefur notið sérstaklega mikilla vinsælda á Norðurlöndunum, en Íslendingar hafa einnig framleitt hægvarp, og eru nýleg dæmi verkefnin Beint frá Burði (2015), Þjóðvegur eitt/Route One (2016), og nýjasta dæmið, bein útsending frá lífi og atferli kettlinga, þar sem heimilislausir kettir úr Kattholti eru í sólarhringsumönnun í beinni útsendingu. Verkefnið er samvinnuverkefni Kattavinafélags Íslands, Kattholts og Nútímans.

Góðgerðarútsendingar

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem langar beinar útsendingar hafa verið notaðar til að vekja athygli á málefnum, en fyrirbærið er svo algengt að til er sér heiti yfir fyrirbærið „charity broadcast“, eða góðgerðarútsending. Þó skal hafa í huga að ekki eru öll hægvörp góðgerðarútsendingar, og ekki eru allar góðgerðarútsendingar hægvörp.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hestur stelur senunni í hægvarpi Sigur Rósar

Menningarefni

Hringferð í hægvarpi við undirleik Sigur Rósar

Landbúnaðarmál

Fyrsta hægvarp RÚV