Hægt væri að fresta forsetakosningum vegna COVID

19.03.2020 - 17:00
Mynd:  / 
Prófessor í sagnfræði segir ekki gott að segja hvort forseti Íslandi fær mótframboð. Líkurnar á því hafi þó líklega minnkað vegna ástandsins sem nú ríkir. Kjörtímabili forsetans lýkur í lok júní. Þó að stjórnarskráin sé skýr um að forsetakosningar skuli fara fram í lok kjörtímabilsins gæti mögulega komið til greina að fresta þeim á grundvelli óskráðra neyðarréttarsjónarmiða.

Forsetakosningar eiga að fara fram 

Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands á forsætisráðherra að auglýsa kosningar í útvarpi og í Lögbirtingablaðinu eigi síðar en þremur mánuðum fyrir kjördag sem á að vera síðasta laugardag í júní, sem á þessur ári er 27. júní. Það er því ekki langt í að auglýsingin birtist. Það er ekki ljóst hvernig ástandið verður í lok júní vegna COVID-19. Ef Guðni Th. Jóhannesson fær mótframboð verða kosningar. Sérstaklega er kveðið á um þær í stjórnarskránni. Í 6. grein stendur orðrétt: 

Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að 4 árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, er kjörtímabil endar. 

Mögulega hægt að fresta forsetakosningum

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir að stjórnarskráin geri ekki ráð fyrir að hægt sé að fresta forsetakosningum. Hins vegar gæti það mögulega komið til greina á grundvelli óskráðra neyðarréttarsjónarmiða. Þá þurfi að vega og meta brýna almannahagsmuni. Kosningum hafi einu sinni verið frestað á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar. Alþingiskosningum var frestað 1941 með þingsályktun þegar landið var hernumið. Í bók Bjargar, Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds, kemur fram að ákvörðunin hafi verið umdeild. Sérstaklega var deilt um hvort nægilegar ástæður væru til frestunar. Hún átti að gilda í allt að fjögur ár. Hins vegar fór svo að kosið var árið eftir og það tvisvar sinnum.

Mótframboð?

En eru einhverjar líkur á því að forsetinn fái mótframboð?  Ekki gott að segja, segir Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann bendir á að aðeins þrisvar sinnum í hafi sitjandi forsetar fengið mótframboð. 

„Gegnum lýðveldissöguna hefur ekki nema þrisvar sinnum komið mótframboð gegn sitjandi forseta. Yfirleitt með tiltölulega litlum árangri þeirra sem boðið hafa sig fram. Það hefur yfirleitt verið þannig að menn líta á forsetann, þegar búið er að kjósa hann, að hann sé þá sameiningartákn þjóðarinnar,“ segir Guðmundur.

Guðni vinsæll og óumdeildur

Hann bendir á að oftast hafi það verið þannig að eftir forsetakjör hafi forseta verið ætlað að sitja á friðarstóli. Óhætt sé að fullyrða að Guðni sé almennt vinsæll og óumdeildur. Litlar líkur séu á að mótframboð, ef það kæmi, myndi skila miklum árangri

En er hægt að segja að meiri líkur væru á mótframboði ef COVID-19 væri ekki að hafa áhrif á líf og aðstæður fólks?

„Ef ástandið væri eðlilegt þá væri það alls ekki ólíklegt. Menn fá þá ákveðna auglýsingu að koma fram í fjölmiðlum. Þar sem þeir geta fylgt sínum málum eftir. Þeir fá ákveðinn sápukassa til að standa á og fylgja þeim eftir,“ segir Guðmundur.

Rætt var við Guðmund Hálfdánarson í Speglinum
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi