Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hægt að sækja um hlutabætur á morgun

24.03.2020 - 17:50
Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd: RUV
Opnað verður fyrir umsóknir um bætur vegna skerts starfshlutfalls fyrir hádegi á morgun. Hægt er að sækja um rafrænt á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Atvinnurekendur þurfa líka að staðfesta að störf hafi verið skert. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar býst við mörgum umsóknum.

„Já, ég tel að það verði mjög mikill fjöldi sem sækir um. Ég held að við getum alveg gert ráð fyrir að minnsta kosti 10 þúsund og alveg upp í 20 þúsund,“ segir Unnur. 

Hún segir að við fyrstu sýn virðist mjög margir fara niður í 25% starf. Það stafi kannski af því að það komi fram hjá fyrirtækjunum sem hafa orðið fyrir stóru höggi. Þau verði að draga eins mikið úr launakostnaði og þau geti. Hugsanlega sé myndin önnur hjá fyrirtækjum sem sjá fram á einhvern rekstur.

Unnur segir of snemmt að spá um hvað atvinnuleysið verði mikið. Hugsanlega verði raunhæft að spá um það í lok dags á morgun.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV