Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hægt að ljúka ofanflóðavörnum verði staðið við loforð

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Það er óhætt að segja að veðurfarið í vetur hafi ýtt hressilega við landsmönnum og stjórnvöldum. Í ljós hefur komið að ýmsir innviðir, eins og raforkukerfið, stóðu ekki eins traustum fótum og talið var. Snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði 14. janúar urðu einnig til þess að endurskoða þurfti hraðann á framkvæmdum við ofanflóðavarnir.

27 milljarðar til að flýta framkvæmdum 

Fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin aðgerðir þar sem 27 milljörðum króna verður varið til þess að flýta framkvæmdum í flutnings- og dreifikerfum raforku og í ofanflóðavörnum. 15 milljarðar af þessum 27 fara í ofanflóðavarnir.

Ofanflóðapeningar hafa farið annað

Fasteignaeigendur borga ár hvert 2,7 milljarða króna í sérstakan skatt sem upphaflega var ætlað að færi í Ofanflóðasjóð. Reyndin hefur hins vegar verið sú að einn milljarður fer í þennan sjóð, en ekki 2,7. Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík situr í stjórn Ofanflóðasjóðs, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hann hefur lengi gagnrýnt þetta skerta framlag ríkisins í sjóðinn, sem hann segir að hafi tafið uppbyggingu ofanflóðavarna.

Spegillinn settist niður með Halldóri  og ræddi við hann um aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu fyrir helgi. Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan. 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV