Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hægt að gera trúnaðarmenn innherja tímabundið

Mynd með færslu
 Mynd: BIG - Nasdaq
Ströng ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti er varða upplýsingar skráðra fyrirtækja á verðbréfamarkaði koma ekki í veg fyrir að farið sé að lögum um hópuppsagnir og greina þar með trúnaðarmönnum frá áformunum. Fyrirtækin þurfa aðeins að skrá viðkomandi sem tímabundna innherja. Stéttarfélag bankamanna og Arion banka greinir á um hvort farið hafi verið að lögunum við hópuppsagnirnar í vikunni.

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, sögðu á fimmtudag, sama dag og 100 starfsmönnum Arion banka var sagt upp, að þau ætluðu að kann lögmæti uppsagnanna. Samkvæmt lögum um hópuppsagnir ber að hafa samráð við trúnaðarmann svo fljótt sem auðið sé um uppsagnirnar, rökstyðja þær og gefa trúnaðarmanni kost á að koma sjónarmiðum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin. 

Ari Skúlason varaformaður SSF sagði í sjónvarpsfréttum í gærkvöld að skráð félög á verðbréfamarkaði nytu engra sérréttinda í hópuppsögnum og athugun lögmætis stæði yfir hjá samtökunum: 

„Það er náttúrulega bara í gangi og það er náttúrulega líka verið að skoða það hjá Vinnumálastofnun. Og ff að Vinnumálastofnun segir að reglan sé skýr nú þá verðum við bara að setjast niður og gefast upp vegna þess að þá er náttúrulega algerlega augljóst að lögin um hópuppsagnir eru handónýtt plagg. 

Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka sagði í fréttum á fimmtudaginn að lögum hafi verið fylgt við uppsagnirnar: 

„Trúnaðarmönnum var gert ljóst að það stæði til að segja upp fólki hér í morgun. Við þurfum auðvitað líka að fylgja lögum sem gilda um verðbréfamarkað af því við erum skráð fyrirtæki og við höfum fylgt öllum lögum og ég held að það hafi komið ágætlega fram í fjölmiðlum í dag að svo er.“

Í lögum um verðbréfaviðskipti eru strangar reglur um hvernigi skuli tilkynna fréttir, sem haft gætu áhrif á markaðsverð skráðs félags í kauphöll. Eðli máls samkvæmt hafa margir að jafnaði aðgang að slíkum upplýsingum. Þeir eru fruminnherjar samkvæmt lögunum og listi yfir þá er opinber.

En svo eru annars konar innherjar. Það er svokallaðir tímabundnir innherjar, sem búa yfir innherjaupplýsingum meðal annars vegna starfs síns, stöðu eða skyldna. Í tilfelli hópuppsagna getur trúnaðarmaður verið tímabundinn innherji. Og þá er hægt að tilkyna honum uppsagnir með fyrirvar samkvæmt lögum um hópuppsagnir.

Félagið eða fyrirtækið á að tilkynna viðkomandi tímabundna innherja þá ákvörðun og einnig Fjármálaeftirlitinu. Upplýsingar um tímabundna innherja eru aldrei opinberar. Innherji getur verið tímabundinn í nokkrar klukkustundir upp í nokkrar vikur.

Ekki er vitað hvort Arion banki hafi í þessu tilfelli gert trúnaðarmann eða trúnaðarmenn að tímabundnum innherjum. Svör bankastjórans benda þó ekki til þess að það hafi verið gert að minnsta kosti ekki nema þá í afar stuttan tíma. 

Myndin með fréttinni er frá því Arion banki var skráður í Kauphöll 15. júní 2018.