
Hægt að fylgjast með virkni eldfjalla í rauntíma
Í eldfjallavefsjánni er til dæmis hægt að nálgast upplýsingar um virkni eldstöðvanna, staðsetningu þeirra, síðasta gos, kort, upplýsingar um skilyrði fyrir flugumferð og fleira, segir á vef Veðurstofunnar.
Eldfjallavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra. Fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga hafa þá lagt verkefninu lið.
Íslenskumælandi almenningi var auðveldað aðgengi
Vinna við ensku útgáfu síðunnar hófst fljótlega eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010. Þá varð þörfin fyrir upplýsingar um íslensk eldfjöll á erlendri grundu ljós. Enska útgáfan af eldfjallavefsjánni fór í loftið 2016, segir Bergrún Óladóttir.
Bergrún vann að þýðingu á efni vefsíðunnar úr ensku yfir á íslensku ásamt Ríkey Júlíusdóttur og Gullaugi Bjarnasyni. Sú vinna hófst snemma árs 2018 og var íslenska útgáfan gerð öllum aðgengileg um miðjan nóvembermánuð í ár.
Með þýðingunni var íslenskumælandi almenningi auðveldað aðgengi að þessum mikilvægu upplýsingum, segir á vef Veðurstofunnar. Þá var grunn- og framhaldsskólum einnig veitt öflugt kennslutól um eldvirkni landsins.
Smíðaði íslensk orð um nútímavísindi
Jónas Hallgrímsson smíðaði mörg þeirra íslensku orða sem notuð eru og lifa góðu lífi í ræðu og riti um nútímavísindi, svo sem orðin jarðfræði, jarðfræðingur, rannsóknarefni, veðurfræði, vísindastarf, staðvindur og eldsumbrot.
Því var ákveðið að opna aðgang að íslensku eldfjallavefsjánni á fæðingardag Jónasar, þann 16. nóvember. „Þetta hefur verið mjög áhugavert verkefni og gaman að kynnast þeim mikla fjölda orða á íslensku sem Jónas Hallgrímsson smíðaði”, segir Bergrún Óladóttir um þýðingarstarfið.
Jónas lauk námi í náttúruvísindum árið 1838, þá með jarðfræði og steinafræði sem sérgrein. Hann er af mörgum talinn brautryðjandi í íslenskum náttúruvísindum og stundaði meðal annars rannsóknir og skrásetningu á náttúru Íslands, segir á vef Veðurstofunnar.