Hægari vöxtur faraldursins hér en víðast annars staðar

26.03.2020 - 20:21
Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV
Meðalfjölgun kórónuveirutilfella er einna minnst á Íslandi af Evrópulöndum, þrátt fyrir að hérlendis séu tekin hlutfallslega fleiri sýni en víðast hvar annars staðar.

Alls hafa 802 Íslendingar greinst með kórónuveirusmit. 82 af þeim er batnað. Nú eru sautján á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu, allir í öndunarvél.

Útbreiðsla faraldursins eykst þó hægt hér miðað við önnur lönd í Evrópu. „Í byrjun faraldra er svona vöxtur yfirleitt í svokölluðum veldisvexti, og það er alveg gríðarleg aukning þá í smitum í umhverfinu og milli manna,“ segir Thor Aspelund, prófessor í lýðtölfræði við Háskóla Íslands. Með inngripi almannavarna, til dæmis samkomubanni og beitingu sóttkví og einangrun, hafi verið hægt á ferlinu. „Við sjáum á niðurstöðunum að það er búið að breyta þessum ætlaða veldisvexti, yfir í þetta hægvaxandi ferli og það er auðvitað leiðin til þess að ná tökum á faraldrinum,“ segir Thor. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þetta er þrátt fyrir að hérlendis séu tekin hlutfallslega mun fleiri sýni en annars staðar. Einungis Færeyingar hafa greint fleiri sýni en Íslendingar, miðað við höfðatölu. „Við erum í hægum vexti og við vitum líka miklu meira um sjúkdóminn í þjóðfélaginu af því að við erum að prófa svo mikið,“ segir Thor.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Heimapróf gagnast ekki ef markmiðið er að setja smitaða í einangrun

Ekki er lengur skortur á sýnatökupinnum eftir að um sex þúsund pinnar fundust á lager hjá Landspítala. Þá verður hægt að nota um tuttugu þúsund pinna sem stoðtækjaframleiðandinn Össur á til. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki standi til að notast við heimapróf að svo komnu máli, líkt og stefnt er að í Bretlandi og víðar. „Heimapróf mælir mótefni gegn veirunni sem kemur ekki fyrr en viku eftir að sýking hefur orðið þannig að í mínum huga þá hefur það ekki mikla þýðingu í þeirri vinnu sem við erum að gera núna,“ segir Þórólfur. Slíkt próf myndi til dæmis ekki gagnast til að setja fólk tímanlega í einangrun, og hindra að það smiti aðra, þar sem greiningin liggur ekki fyrir fyrr en of seint.

Telja að enginn COVID-sjúklingur hafi smitað annan á Landspítala

Samtals hafa þrír á tíræðisaldri greinst með smit. Innlagnir á Landakotsspítala hafa verið bannaðar, eftir að starfsmaður og sjúklingur greindust með sjúkdóminn. Þá hefur Rjóðrinu, sem er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn, verið lokað vegna smits starfsmanns á Barnaspítala Hringsins. Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala segir að þegar smit hafi greinst á deildum spítalans hafi það verið starfsfólk sem kom með smitið inn á spítalann, ekki sjúklingar. „Við höfum ekki getað sýnt fram á það að sjúklingar hafi smitað starfsfólk með beinum hætti,“ segir Már. 

Smit hafi greinst hjá starfsmönnum á Barnaspítala, á Landakoti, á bráðamóttöku og á einni geðdeild. 

Eru einhver dæmi um það að starfsfólk hafi smitað sjúkling?

Við höfum ekki óyggjandi sönnur þess efnis, en það hefur komið upp smit hjá bæði sjúkling og starfsmanni en við vitum ekki hver atburðarrásin er, en við erum að kanna það,“ segir Már.

En eru einhver dæmi um að sjúklingur hafi smitað annan sjúkling af COVID-19? „Nei, okkur er ekki kunnugt um það,“ segir Már.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi