Hæð garðsins skipti sköpum

15.01.2020 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Flosi Sigurðsson, einn aðalhönnuða sjóflóðavarnargarðsins, sem reyndi á á Flateyri í gærkvöld, segir það mikla gæfu að menn hafi farið langt umfram ítrustu hættumatskröfur við gerð garðsins á sínum tíma. Það hafi skipt sköpum í gær.

 

Snjóflóðavarnargarðurinn á Flateyri var byggður eftir flóðin 1994 og 1995 og var tilbúinn um aldamótin. Fyrir flóðin gerðu ítrustu kröfur ráð fyrir að 12-15 metra hár garður myndi duga til að vernda byggðina. 

Flosi segir að við hönnun varnanna hafi verið leitað til sérfræðinga á sviði ofanflóðavarna í Noregi, Austurríki, Sviss og víðar.

„Og við gerðum í raun miklu meiri kröfur heldur en almennt tíðkuðust í snjóflóðavörnum í Evrópu á þeim tíma.  En eftir þessi mannskæðu snjóflóð 1994 og 1995 þá var þetta virkilega tekið af alvöru og Íslendingar settu sig í fararbrodd í kröfugerð um hættumat vegna snjóflóða. Og miðað við þessar breyttu forsendur sem við bjuggum okkur til eftir flóðin þá náðum við því í gegn að þessi varnargarður yrði 18-20 metra hár þar sem hann er hæstur.“

Garðurinn var gerður úr jarðvegi í grenndinni og svo var sett yfir hann loðnunót og lúpínufræjum stráð yfir allt en lúpínan vex hratt, dreifir sér vel og hefur langar og sterkar rætur sem binda jarðveginn vel saman. Flosi segir að nú verði farið í að skoða hvernig garðurinn kemur undan flóðunum sem féllu í gærkvöld.

„Ég reikna með að hann sé bara í lagi en það verður bara að koma í ljós. Við sjáum það ekki fyrr en snjóa leysir nákvæmlega. Við erum að byggja á líkum og tilraunaaðferðum sem hafa reynst nokkuð góðar sýnist mér og staðfesta í raun aðferðafræðina sem við unnum eftir. Ég er afskaplega ánægður með að þetta sé að virka og að við höfum gegnið svona langt í að hækka garðinn um fram kröfur. Það skipti sköpum.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV