Gyða er menntuð í sellóleik en síðastliðin ár hefur hún bæði flutt frumsamda tónlist og átt í samstarfi við tónlistarfólk úr ýmsum áttum. Í rökstuðningi dómnefndar segir enn fremur að menntunin hafi nýst henni sem grunnur til að fara eigin leiðir. „Gyða hrífur áheyrendur sína með einstökum flutningi sem einkennist af áhrifaríkri tilfinningu fyrir mótun hendinga og fraseringu. Hún hefur mikla sérstöðu sem flytjandi og nærvera hennar á sviði er bæði heillandi og einstök – viðkvæm og óræð en jafnframt kraftmikil. Flutningur hennar er ákaflega persónulegur, samfelldur og framúrskarandi, hvort sem hún leikur á selló, syngur á sinn sérstæða hátt eða leikur á önnur hljóðfæri, og ávallt liggur frumleikinn til grundvallar.“
Gyða Valtýsdóttir vakti fyrst athygli með rafsveitinni múm upp úr síðustu aldamótum. Árið 2017 gaf hún út plötuna Epicycle, sem inniheldur verk tónskálda á borð við Schubert, Schumann og Messiaen, en einnig tilraunakenndari höfunda eins og Harry Partch og George Crumb. Árið 2018 sendi hún frá sér plötuna Evolution og fyrsta plata hennar með kvikmyndatónlist (við myndina Undir halastjörnu) kom út á síðasta ári.
Tónlistarverðlaunin voru afhent af verðlaunahafa ársins 2017, hljómsveitarstjóranum Susönnu Mälkki, við verðlaunaathöfn í beinni útsendingu frá tónleikahúsinu í Stokkhólmi á þriðjudagskvöld.
Annað hvert ár eru tónlistarverðlaunin veitt núlifandi tónskáldi og hitt árið, eins og í ár, eru þau veitt tónlistarhópi eða -flytjanda.
Upplýsingar um aðra verðlaunahafa kvöldsins má finna hér.