Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gunnar Smári stofnar Sósíalistaflokk Íslands

11.04.2017 - 00:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Smári Egilsson, sem hætti afskiptum af vikublaðinu Fréttatímanum í síðustu viku, hefur stofnað Sósíalistaflokk Íslands. Búið er að opna fyrir skráningar í flokkinn en markmið hans, ef marka má vefsíðu flokksins, er „samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar.“

Gunnar Smári greinir sjálfur frá þessu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Þar kemur fram að flokkurinn verði formlega stofnaður 1. maí - á degi Verkalýðsins. Ekki kemur hins vegar fram hvort flokkurinn muni bjóða fram í næstu sveitastjórnarkosningum né hvort verið sé að undirbúa framboð til þingkosninga eftir þrjú ár. 

Flokkurinn á að vera málsvari launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. „Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess.“   

Gunnar Smári er skráður fyrir léni flokksins á isnic.is en þar sést að lénið var skráð 23. mars.

Fyrir þremur árum varpaði Gunnar Smári fram þeirri hugmynd hvort Ísland væri ekki betur komið sem fylki í Noregi. Hugmyndin vakti talsverða athygli og til stóð að stofna stjórnmálaafl um málið.