Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gunnar Helgason les fyrir 40.000 skólabörn

Mynd: Segðu mér / RÚV

Gunnar Helgason les fyrir 40.000 skólabörn

09.04.2015 - 10:08

Höfundar

IBBY á Íslandi fagnaði degi barnabókarinnar með því að færa grunnskólabörnum landsins nýja smásögu eftir Gunnar Helgason að gjöf. Markmið höfundarins var að fá 40.000 grunnskólabörn til að skella upp úr í risastórri sögustund sem fór fram á Rás 1 í morgun.

Það var mikið lagt undir. „Ég er mjög stressaður,“ sagði Gunnar áður en hann hóf lesturinn. „Því ég vil skemmta hlustendum ... ef enginn hlær þá hefur þetta mishepnnast.“

Sagan heitir „Lakkrís — eða glæpur og refsing“  og er skrifuð fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-16 ára. Sagan er sjálfsævisöguleg og byggir á neyðarlegu atviki sem Gunnar sjálfur lenti í. Hann segir það hafa verið snúið verkefni að finna söguefni sem myndi henta fyrir svo breiðan aldurshóp. „Ég var svolítið lengi að skrifa þessa sögu ... það tók alveg tvo og hálfan mánuð, þó hún sé ekki lengri en þetta.“ Hlusta má á upplestur Gunnars í spilaranum að ofan.

Heimurinn verði betri þegar börnin hlæja
„Mitt markmið í lífinu er að skemmta börnum og ég trúi því að heimurinn verði betri þegar börnin hlæja,“ segir Gunnar. Hann undirstrikar þó mikilvægi þess að sögurnar séu ekki innantómur galsaskapur. Það skipti máli að finna réttan tóninn og að börnin samsami sig með persónum.

Þetta er í fimmta sinn sem haldið er upp á daginn með þessum hætti. Sagan var flutt á Rás 1 kl. 9:10 og samtímis lesin upphátt í grunnskólum um allt land.

IBBY á Íslandi eru frjáls félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi. Markmið samtakanna er að efla þessar greinar með umfjöllun, útgáfustarfsemi og viðurkenningum.